Við hljótum að gera ráð fyrir því að Ísland greiði atkvæði með ályktun sem beinist gegn viðurkenningu á Jerúsalem sem höfuðborg Ísraels. Um ályktunina verður kosið á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Hún áréttar margar samþykktir á vettvangi SÞ þar sem segir að staða Jerúsalem skuli ákvarðast í samningum milli Ísraels og Palestínu.
Donald Trump hefur hótunum vegna þessa máls, meðal annars gegn ríkjum sem þiggja þróunaraðstoð af Bandaríkjunum. Íslenska ríkisstjórnin fékk bréf frá Nikki Haley, sendiherra Bandaríkjunum hjá SÞ, þar sem sagði að það gæti haft afleiðingar ef greidd væru atkvæði gegn Bandaríkjunum. Mörg fleiri ríki fengu slíkt bréf.
Frá diplómatískum sjónarhóli þykir þetta mjög óvenjulegt – og í hæsta máta óviðeigandi.
Íslenska utanríkisráðuneytið hefur tilkynnt að það muni ráðfæra sig við hin Norðurlöndin – og þá væntanlega greiða atkvæði eins og þau. Árið 2011 viðurkenndi Ísland sjálfstæði Palestínu.
Stjórnir Bandaríkjanna og Ísraels láta ófriðlega vegna þessa á alþjóðavettvangi, Benjamin Netanyahu lýsir því yfir að SÞ sé lygabæli og Ísrael taki ekkert mark á atkvæðagreiðslunni. Talið er að allt að 150 ríki af 193 á Allsherjarþinginu muni greiða atkvæði með ályktuninni. Svipuð ályktun var samþykkt af 14 ríkjum af 15 í Öryggisráði SÞ, en Bandaríkin beittu neitunarvaldi. Ósigurinn blasir semsagt við.
Talið er hugsanlegt að Ungverjaland og Tékkland muni láta undan þrýstingi Bandaríkjanna. Það eru ríki sem eru bæði á mjög einkennilegu róli. En hvað gerir Ísland? Lætur ríkisstjórnin Trump hafa áhrif á sig?