Skötuátið á Þorláksmessu er dæmi um það hvernig hefðir verða til í nútímanum. Þegar ég var að alast upp í Vesturbænum í Reykjavík borðaði nánast enginn skötu, en maður heyrði af þessum sið sem var hafður í heiðri fyrir vestan. Þó voru örfá húsþar sem skatan var elduð þennan dag, maður hálfpartinn vorkenndi börnunum á þeim heimilum, því skötuátinu fylgdi drykkjuskapur alveg ofan í jólum og timburmenn á aðfangadag.
Vesturbæingum þess tíma þótti skötuát ekki par fínt og lyktin ekki góð.
Þetta var á tímanum fyrir jólaglögg, jólahlaðborð, jólabjór – það þekktist eiginlega ekki að taka jólin út fyrirfram í formi matar og drykkjar alveg frá því í lok nóvember. Átið hófst ekki fyrr en hátíðin sjálf var gengin í garð.
Nú eru breyttir tímar – það liggur við að menn séu búnir að fá nóg þegar jólin sjálf byrja.
En ég var að velta fyrir mér skötunni. Hví hefur hún ekki stærra hlutverk í jólaskreytingum. Skötur eru jú ósköp myndrænar? Samt er ekkert skötuskraut að finna í minjagripabúðunum.
Það gerðist hins vegar, alveg óvart, þegar ég setti upp jólaseríu í garðinum hjá mér um daginn að hún reyndist taka á sig mynd skötu. Hún er í skötulíki.