Tvær fréttir standa upp úr í dag.
Annars vegar úrskurður Kjararáðs um laun biskups. Það er einn rauður þráður í úrskuðum Kjararáðs og hann heldur áfram að spinnast.
Nefnilega sú eindregna skoðun sem í þeim birtist að laun séu alltof lág á Íslandi og að þau beri að hækka verulega.
Hin fréttinn er dómur Hæstaréttar þess eðlis að Sigríður Andersen hafi brotið stjórnsýslulög þegar hún skipaði dómara í Landsrétt. Þetta er í raun fyrsta krísan sem stjórn Katrínar Jakobsdóttur lenti í, því þótt málið hafi verið afgreitt á tíma síðustu stjórnar situr Sigríður í dómsmálaráðuneytinu nú eins og þá.
Sigríður segir aðspurð að hún ætli ekki að „deila við dómarann“ en í sömu málsgrein segist hún vera „ósammála efnislega niðurstöðu Hæstaréttar“. Æðsti yfirmaður dómsmála í landinu tekur semsagt ekki mark á Hæstarétti. Það verður samt að segja eins og er að staða hennar sem ráðherra er ekki sérlega traust eftir þetta – og spurning hvað forsætisráðherrann segir.