Það kemur nokkuð á óvart að fjölmennasti hópur hælisleitenda á þessu ári kemur frá Georgíu. Þetta kemur fram á vef RÚV en þar er er byggt á nýjum tölum frá Útlendingastofnun. Á síðasta ári voru Makedóníumenn fjölmennastir.
Skýringar eru á þessu. Í vor fengu Georgíumenn leyfi til að ferðast inn á Schengensvæðið án vegabréfsáritana. Í Georgíu hefur flest þokast í frelsisátt síðustu árin og ástand mannréttindamála þykir hafa batnað mjög. Ástæða fólksflutninganna er semsagt aukið frelsi, ekki hörmungaástand.
Georgía er talin örugg samkvæmt skilgreiningu. Það þýðir að langflestir sem koma þaðan til Íslands og sækja um vernd eru sendir burt aftur, líkt og verið hefur með fólk frá Makedóníu, Albaníu og Kosovo. Samkvæmt heimildum hafa farið tvær flugvélar með hælisleitendur sem eru sendir aftur til Georgíu á þessu ári.