Lesendabréfasíðan sem bar nafnið Velvakandi var oft besta efnið í Morgunblaðinu, það var í þá tíð allir landsmenn lásu Moggann. Annað var eiginlega óhjákvæmilegt. Margir frábærlega góðir pennar skrifuðu í Velvakanda eða hringdu inn skilaboð – og það var rætt um fjölbreyttustu málefni. Nú er þetta allt komið inn á Facebook, fáir láta sér detta í hug að skrifa í blöðin, en á samskiptamiðlunum er auðvitað engin ritstýring eins og var í Velvakanda gamla.
Hér er frábært bréf frá því snemma árs 1968. Þarna fjallar söngkonan ástsæla, Guðrún Á. Símonar um hvernig megi ná Valashblettum úr jólafötum barna. Valash var appelsínugosdrykkur, framleiddur á Akureyri. Guðrún hefur afdráttarlaust svar við því og klykkir út með að „servíettumenning“ sé á mjög lágu stigi hérna.
Viðbrögð við bréfi Guðrúnar létu ekki á sér standa, því Guðrún Jacobsen skrifaði fáum dögum síðar og tók undir með nöfnu sinni söngkonunni. Þar er um að ræða Valashbletti í „silki damask munnþurrkum sem keyptar voru í Færeyjum á leiðinni til Malorku.“