Brexit er að stranda á alls kyns vandamálum sem menn gátu auðvitað séð fyrir en gerðu lítið úr eða kusu beinlinis að horfa framhjá. Eins og staðan er í dag er Írland stærsti höfuðverkurinn. Englendingar hafa alltaf komið fram við Íra eins og þeir séu annars flokks. Saga kúgunar Englendinga á Írum er löng, svo kom tími þegar Írar voru ekki annað en vinnuafl sem þeim var gjarnt að líta niður á. Þá gerðust undur og stórmerki – írska hagkerfið fór að vaxa og nú standa Írar að mörgu leyti framar Englendingum.
Írland á 500 kílómetra löng landamæri að Norður Írlandi – sem heyrir undir Bretland. Þessi landamæri eru nú galopin. Írland og Bretland fóru saman inn í Evrópusambandið á sínum tíma. Fyrir íbúa bæði Írlands og og velflesta innbyggjara Norður-Írlands er óþolandi tilhugsun að þau lokist. Það hefur alvarlegar efnahagslegar afleiðingar beggja vegna landamæranna, norður-írska hagkerfið er mjög háð því írska, en hættan er líka sú að þetta muni ýfa upp gömul sár frá tímanum þegar kaþólikkar og mótmælendur bárust á banaspjótum.
Þegar Brexit verður að veruleika er ekki möguleiki að hafa þessi landamæri opin – Bretland verður þá ekki aðili að tollabandalagi Evrópusambandsins. Þá verður að tollafgreiða vörur á stóru svæði þar sem slíkt hefur ekki tíðkast, milli fólks sem er náskylt. Framkvæmdin virðist nánast ómöguleg – boðar ekki neitt nema vandræði. Írska stjórnin stendur fast á því að Evrópusambandið geti ekki haldið áfram í samningaviðræðum um Brexit nema komi til fullvissa um að ekki verði sett upp „hörð landamæri“. En vandinn er að enginn hefur komið með skynsamlega lausn á þessari klípu sem hefði kannski þurft að ræða betur á tíma Brexit-atkvæðagreiðslunnar.
Að minnsta kosti telja fáir að sé hægt að fara leiðina sem bresk þingmaðurinni Katie Hoey stakk upp á í viðtali við BBC – að Írarnir byggi sjálfir vegg og borgi fyrir hann. Það þykir minna fullmikið á Donald Trump.