Katrín Jakobsdóttir segir að það komi í ljós á morgun hvort verður af stjórnarmyndun. Það verður að teljast svona heldur líklegt eftir langar og strangar samningaviðræður þar sem formenn flokkanna þriggja hafa talað saman í marga klukkutíma á hverjum degi. Það vekur nokkra athygli hvað þeir hafa hleypt fáum að viðræðunum – og hversu lítið hefur lekið út. Katrín virðist til dæmis ekki hafa fjölmenn teymi í kringum sig, en gefur sér samt tíma til að mæta líka í viðtöl hjá fjölmiðlum.
Hún virðist heldur ekki ætla að reiða sig á spunalækna til að „selja“ stjórnarsáttmálann heldur treystir hún á eigin vinsældir – og það pólitíska auðmagn sem hún hefur. Það kann jafnvel að hafa hjálpað Katrínu hversu viðbrögðin hafa verið sums staðar á vinstri kantinum, meðal annars í röðum Samfylkingarinnar og hjá Pírötum.
Rithöfundurinn Auður Jónsdóttir skrifar í dag á Facebook:
Nú hafa allar þessar stjórnmálakonur sagt frá því hvernig þær hafa verið lítillækkaðar og smættaðar með orðum og gerðum og botnlaust aðdáunarvert hjá þeim að sýna annað eins hugrekki og um leið samtakamátt. En á sama tíma og fólk fagnar framtaki þeirra láta hinir og þessir hafa eftir sér furðulega niðurlægjandi orð um Katrínu Jakobsdóttur sem stendur í ströngu þessa dagana. Það er sagt að henni sé ekki treystandi til að láta karlana ekki plata sig, að hún sé blinduð af Bjarna Ben, að hún sjái ekki í gegnum aðferðafræði Sjálfstæðisflokksins og svona má endlaustu upp telja. Hún er smættuð með orðum og það notað gegn henni að hún sé fíngerð kona – of lítil í stóra karla. Nú er ég ekki í VG en ég þekki Katrínu vel og veit að hún er eldklár, útsjónasöm, allt nema græskulaus, djúpvitur reynslubolti, jarðbundin og hefur roð við hvaða karli sem er. Hún á ekki skilið að sitja undir þessu.
Auður Jónsdóttir segir að fallið hafi furðulega niðurlægjandi orð um Katrínu Jakobsdóttur.