fbpx
Laugardagur 23.nóvember 2024
Eyjan

Skuggarnir í sambandinu við Bretland

Egill Helgason
Laugardaginn 25. nóvember 2017 18:39

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra segir að náin tengsl við Breta eigi að vera forgangsverkefni hjá Íslendingum. Þetta kemur fram í frétt í Morgunblaðinu.

Auðvitað er það rétt að tryggja þarf viðskiptahagsmuni vegna Brexit. Við vitum reyndar ekki enn hvernig það kemur til með að líta út – og sjálfir vita Bretar ekki sitt rjúkandi ráð. Það eru ótalmargir lausir endar. Hvernig á að tryggja vöruflutninga milli meginlandsins og Bretlands? Hvað á að gera við landamærin milli Írlands og Norður-Írlands? Sumt af þessu er svo viðkvæmt að stjórnmálamenn í Bretlandi þora varla að tæpa á því.

Við Íslendingar höfum verið afskaplega hændir að Bretum. Við sjáum enska fótboltann sem við horfum á eins og hann sé okkar eigin. Sumir skilgreina sig eftir því hvort þeir eru Púlarar eða United-menn.

En á þessu eru skuggahliðar. Við höfum haft tilhneigingu til að horfa á heiminn með breskum augum – höfum að sumu leyti verið eins og hugmyndaleg hjálenda Breta. Um leið gisuðu tengslin við Norðurlönd sem voru mun sterkari áður fyrr. Við höfum tekið upp margt frá Bretlandi sem reyndist okkur býsna óhollt.

Íslendingar tileinkuðu sér thatcherismann af miklu offorsi. Nokkru síðar kom blairisminn og varð mjög vinsæll hérlendis. Útrásarvíkingarnir sóttu til Bretlands, London varð höfuðborg þeirra, og þeir tileinkuðu sér breska viðskiptahætti og viðskiptasiðferði.

Breska hagkerfið byggir upp á gengdarlausri fjármálavæðingu – sumir myndu reyndar kalla það brask. Það er lítið framleitt í Bretlandi, reyndar eru Bretar svo aftarlega á merinni á því sviði að vafasamt er að þeir geti nokkurn tíma aftur komist í hálfkvisti við Þjóðverja. Á sama tíma er óvíða í Evrópu meiri ójöfnuður en í Bretlandi – stéttaskiptingin þar er himinhrópandi eins og birtist til dæmis í menntakerfinu og mismuni milli landshluta.

Svo má ekki heldur gleyma því að fá ríki hafa sýnt Íslendingum annan eins fjandskap og Bretland. Það voru Bretar sem frekjuðust hér á miðunum og varð að hrekja þá brott í mörgum þorskastríðum. Og það voru þeir sem settu hryðjuverkalög á Ísland í bankahruninu 2008. Við getum aldrei vænst annars frá Bretum en að þeir gæti sinna ítrustu einkahagsmuna – sem oft taka lit af því að þeir voru eitt sinn heimsveldi sem réði

Utanríkisráðherra Íslands er mikill Bretavinur. Hugarheimur hans er mótaður af breskum stjórnmálum og breskum fjölmiðlum, það leynir sér ekki. Og líkt og segir er sjálfsagt að tryggja íslenska viðskiptahagsmuni við Brexit. En hvað varðar tengsl við erlend ríki og fyrirmyndir er okkur miklu nær að líta annað – þar standa Norðurlöndin auðvitað næst okkur. Það er líka ljóst að Þjóðverjar hafa almennt mun meiri áhuga á Íslandi en Bretar.

 

Íslendingar gleyptu í sig thatcherismann og blairismann. Svo settu Bretar á okkur hryðjuverkalög.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 dögum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Ræðum ESB!

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Ræðum ESB!
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 dögum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Sér íslenskir skattar og yndi stjórnlyndra flokka

Þorsteinn Pálsson skrifar: Sér íslenskir skattar og yndi stjórnlyndra flokka