Þetta er forsíða Fréttablaðsins frá því í dag. Það er „Black Friday“. Auglýst í gríð og erg í öllum fjölmiðlum. Það eru varla nema tvö til þrjú ár síðan þetta upphófst á Íslandi – er það svo að hér fyllist verslanir af fólki? Það hefur líka verið talað um Svartan föstudag eða Svartan fössara – en enska heitið er yfirgnæfandi.
Eins og góður vinur minn bendir á er mesti sparnaðurinn fólginn í að kaupa ekki neitt. Það er 100 prósent.
Mér er reyndar tjáð að í Bandaríkjunum þar sem Svartur föstudagur átti upptök sín 1952, og er víst mesti verslunardagur ársins, þyki 25 prósenta afslættir frekar klénir. Það myndu fáir nenna að gera áhlaup á verslanir fyrir slík kjör. Í Bandaríkjunum kemur líka fyrir að viðskiptavinir troðast undir á þessum degi. Það munu vera a.m.k. tíu dauðsföll síðasta áratuginn og margir hafa slasast.
Annars er Svartur föstudagur dagurinn eftir Þakkargjörðarhátíðina. Hún er indæl, frekar látlaus, byggir aðallega á samvistum við fjölskyldu, en daginn eftir tekur brjáluð neyslan völdin og afslættirnir fara jafnvel upp í 70 til 80 prósent.
En svo er hægt að hlusta á þetta lag. Black Friday með Steely Dan.