Árni Helgason skrifar skemmtilega grein um sjoppur – og dauða þeirra – á vef Kjarnans. Það vill svo til að fyrir næstum þrjátíu árum gerði ég sjónvarpsþátt um sjoppur – og dauða þeirra. Þetta var ein frumraun mín í sjónvarpi. Þá talaði ég meðal annars um bensínstöðvar sem hefðu fengið mikilmennskuæði og væru að breytast í sjoppur. Sú þróun hefur haldið eindregið áfram síðan þá. Núorðið er erfiðara að fá bensín en sælgæti og pylsur á bensínstöðvum.
Árni segist muna eftir níu sjoppum í Vesturbænum en þær séu allar horfnar. Ég get bætt um betur. Ég man eftir þeirri tíð að voru fimm sjoppur bara við Ásvalla- og Sólvallagötu. Svo voru tvær rétt fyrir sunnan, við Hringbrautina, á Bræðraborgarstígnum voru tvær en á Vesturgötunni þrjár – ef ég man rétt. Líklega hafa þær skipt tugum í Vesturbænum. Sú sögufrægasta var Simmasjoppa sem var í skúr við Suðurgötuna. Hún kemur fyrir í Punktur punktur komma strik og í Táningabók Sigurðar Pálssonar:
Það voru reyndar tvær aðrar sjoppur við Fálkagötu en þær voru kidstöff miðað við Simma. Símon var svarthærður hnallur, hafði skoðanir á öllu og kom þeim til skila formálalaust. Við ögruðum honum og hann reif kjaft, við rifum kjaft.
Simmasjoppa var bara ein af mörgum frægum sjoppum bæjarins, það voru líka til Círó, Flórída, Krónan, Árnasjoppa og margar fleiri. Víðast voru við afgreiðslu þreyttir og svolítið úrillir karlar – eða þá unglingsstúlkur sem þeir höfðu í vinnu. Þetta voru litlar holur, ekki jafn hátimbraðar og sjoppur sem nú tíðkast, en með öllu meiri karakter.
Þessar sjoppur eru horfnar og líka Simmasjoppa. Þórarinn Eldjárn, annar gestur sjoppunnar, orti um hana erfiljóð í bókinni Grænmeti og átvextir.
Frekjulega gín hún þessi gloppa
á Grímstaðaholti, eins og vanti tönn.
Ég minnist þess að hér stóð Simmasjoppa
sælureitur mitt í dagsins önn.Fyrir utan gatið sat hann Simmi
saldi kók og prins og lakkrísrör.
Fyrir utan: Önni, Krummi, Vimmi
og allir hinir: Spurningar og svör.Skýli lenti í skipulagsins hvolfti
skyndilega var hér allt á brott.
Fölgrátt sýnist frímerki úr lofti
en fornrar dýrðar sjá menn engan vott.Og til hvers að láta strætisvagna stoppa
á staðnum áfram? Hér er engin sjoppa.
Þegar ég var að alast upp þótti sjoppuhangs mikið vandamál. Það voru ekki bara unglingar sem héngu í sjoppunum, öllum til vandræða og ama, heldur kom það líka fyrir að fullorðið fólk lagðist í sjoppuhangs – gjarnan eldri einhleypir karlmenn. Svo rammt kvað að þessu að talin var nauðsyn að grípa til aðgerða til að stemma stigu við sjoppuhangsinu. Og það varð að vera eitthvað sem virkaði, því vandinn var meðal annars sá að fólkið átti ekki í önnur hús að venda en sjoppurnar. Það var ekki mikil kaffihúsa- eða kráarmenning í bænum á þeim árum.
Loks voru settar reglur sem kváðu á um að eftir sex á kvöldin mættu sjoppur ekki selja nema út um þar til gert söluop eða lúgu. Þetta er úr Vísi frá 25. apríl 1964. Má ráða af fréttinni að þessar hörðu aðgerðir hafi þegar verið farnar að virka.
Um þetta má svo fræðast aðeins betur í innslagi úr Kiljunni frá því 2015, en þar var fjallað um Grímstaðaholtið og Simmasjoppu.