Í leiðara ríkisdagblaðs Norður-Kóreu er Donald Trump Bandaríkjaforseti, harðlega gagnrýndur fyrir að móðga Kim Jong-Un í opinberri heimsókn Trump til Suður- Kóreu á dögunum. Trump lauk Asíuför sinni nýlega en sem kunnugt er hafa leiðtogarnir tveir verið að munnhöggvast undanfarið; Trump á Twitter og Kim Jong-Un í gegnum ríkisfjölmiðla sína.
Eftir að Kim Jong-Un kallaði Trump „gamlan“ svaraði Trump að hann „myndi aldrei kalla Kim Jong-Un lítinn og feitan.“
Þessi orð virðast hafa farið fyrir brjóstið á höfundi leiðara ríkisdagblaðsins, því þar segir að „hann ætti að vita að
hann er bara ógeðslegur glæpamaður, dæmdur til dauða af kóresku þjóðinni.“
Samskipti þjóðanna hafa aldrei fyrr verið svo slæm og meira að segja hefur bandaríska þingið kallað eftir breyttum vinnureglum forsetaembættisins þegar kemur að ferli ákvarðanatöku varðandi notkun kjarnorkuvopna, þar sem Trump sé ekki treystandi til að fara með slíkt vald.