„Ríkisstjórn í fæðingu“ segir í frétt Ríkisútvarpsins eins og sá má hér að neðan. Kannski er þetta ofmælt, eiginlegar stjórnarmyndunarviðræður eru ekki hafnar, þetta er enn á þreifingastiginu. Skammirnar hellast yfir Vinstri græn og Katrínu Jakobsdóttur fyrir það eitt að kanna möguleikann á að fara í stjórn með Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki.
Hér er dæmi, af vegg blaðamannsins Kristins Hrafnssonar:
Það er þarna skemtileg valþröng fyrir Katrínu; hún veit fullvel að hún mun skakklappast með íhaldshækjustimpilinn ef hún fer með B/D og tapa töluverðu fylgi. Æluspýjan sem hún fær yfir sig verður svakaleg. Forsætisráðherrastóll og/eða digur velferðamálapakki mun ekki breyta þar miklu. Hún hefur heldur enga tryggingu fyrir því að það gjósi ekki upp enn einn líkfnykurinn vegna mála sem tengjast Bjarna Ben.
Og Hallgrímur Helgason, hann talar líka um spýju í grein í Stundinni:
Hér gildir hið fornkveðna: Frekar þann versta en þenna næstbesta. Sjálfstæðisflokkur og Framsókn, sem og hinn óstýriláti lausaleikskrói þeirra sem skírður var Miðflokkur, eru og verða í tröllahöndum. Þetta eru eitraðir flokkar. Sá sem sest í stjórn með þeim deyr í stólnum. Á staðnum.
Tröllin munu hvort eð er stjórna áfram, með eða án okkar. Það breytir engu hvort við komumst í bland við þau eða ekki.
Á meðan þau tóra verða ælan og öskrið okkar eina skjól.
Það eru semsé engar líkur á að þessi þriggja flokka ríkisstjórn fái nema neikvæð viðbrögð á vinstri vængnum, Vinstri græn hjóta að vera eins og milli steins og sleggju með þetta. Kannski er ógerningur að sannfæra hina hörðu sveit í vinstrinu að þetta verði í lagi.
Á meðan tala Samfylkingin, Píratar og Viðreisn sig saman um eins konar miðjubandalag –að sögn til að bjóða Vinstri grænum annan valkost til stjórnarmyndunar. En það er auðvitað háð því að Framsókn sé með – Maddömuna virðist ekki langa mikið í þennan hóp. Eða þá Miðflokkurinn eða Flokkur fólksins? Þetta virkar samt eins og nokkuð klókt útspil, og máski hefur það líka þau áhrif að styrkja aðeins stöðu Katrínar í viðræðunum við Sjálfstæðisflokkinn og Framsókn. Gefur henni smá vogarafl.
Fréttir herma að Vinstri græn sækist eftir því að fá forsætisráðuneytið. Varaformaður flokksins missir aðeins kúlið í umræðum á netinu og segir að það sé „ófrávíkjanleg krafa“ að Katrín leiði ríkisstjórnina. Þetta hefur ekki komið svona beint fram áður. Það yrðu náttúrlega stórtíðindi fyrir flokkinn. En sagan sýnir að það getur líka verið vandkvæðum bundið fyrir minni flokk að vera með forsætisráðuneytið í samstarfi við stærri flokk. Hversu marga aðra ráðherra ætli VG myndi fá og hversu lengi yrðu flokksmenn hamingjusamir með þau býti?