Tvennar ríkisstjórakosningar voru haldnar í Bandaríkjunum í gær og sigruðu demókratar þær báðar. Annarsvegar var það Ralph Northam sem sigraði repúblikanann Ed Gillespie í Virginíu og hinsvegar Ed Murphy sem sigraði repúblikanann Kim Guadagno í New Jersey. Voru þetta fyrstu ríkisstjórakosningarnar í Bandaríkjunum síðan Donald Trump var kosinn forseti fyrir ári síðan.
Þá var sitjandi borgarstjóri New York, demókratinn Bill de Blasio, endurkjörinn með um 65% atkvæða, en mótframbjóðandi hans, repúblikaninn Nicole Malliotakis, fékk um 29% atkvæða, sem gerir sigurinn einn þann stærsta í borginni í 32 ár.
Úrslitin þykja vera nokkuð högg fyrir Trump forseta, sem er þessa stundina í opinberri heimsókn í Kína, sem er hluti af Asíuför hans. Hann tjáði sig þó aðeins með einu tísti um málið á Twitter, hvar hann gagnrýndi Ed Gillespie fyrir að hafa ekki staðið fyrir sömu gildum og Trump stendur fyrir.
Þykja þessi úrslit benda til þess að úrslit næstu þingkosninga gætu sveiflast demókrötum í hag, en repúblikanar eru í meirihluta bæði í öldunga- og fulltrúadeild þingsins.