fbpx
Sunnudagur 22.desember 2024
Eyjan

Jón Steinar um Markús: „Maðurinn ber greinilega mikinn kala til mín“ – Hæstiréttur fær falleinkunn

Kristjón Kormákur Guðjónsson
Föstudaginn 3. nóvember 2017 09:55

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Jón Steinar Gunnlaugsson, lögmaður og fyrrverandi Hæstaréttardómari, skýtur föstum skotum að Hæstarétti í nýrri bók sinni „Með lognið í fangið – Um afglöp Hæstaréttar eftir hrun“, sem gefin var út í dag. Í bókinni metur Jón Steinar meðal annars hvernig dómstóllinn hefur staðið sig við að fást við þau dómsmál sem tengst hafa efnahagshruninu árið 2008. Niðurstaða hans er sú að dómstóllinn fái falleinkunn.

Vinsældakapphlaup réttarins

Í bók sinni rekur Jón ótal dæmi um dóma og aðrar ákvarðanir Hæstaréttar í kjölfar hrunsins sem að hans mati hafi lítið með lögfræði að gera. Ákvarðanirnar hafi ráðist af hugarástandi sem Jón lýsir þannig að dómarar Hæstaréttar hafi ætlað sér að sýna almenningi að þeir myndu standa sig í að láta þrjótana í hruninu finna fyrir því. Jón telur að þetta hugarfar dómaranna hafi verið orðið ríkjandi strax árið 2010, þegar þeir samþykktu kröfur um gæsluvarðhald yfir fyrrverandi stjórnendum bankanna, sem höfðu þá gengið frjálsir í að minnsta kosti tvö ár og gátu því tæpast talist geta spillt fyrir rannsókn mála þeirra. Að sama skapi hafi héraðsdómarar verið einkar fúsir til að veita rannsóknaraðilum heimildir til að hlera síma sakborninga í hrunmálum. Bendir Jón í því sambandi á að á árunum 2008 til 2012 voru lagðar fram 875 beiðnir um símhlustanir sem allar hafi verið samþykktar nema sex. Við þetta málefni tengir Jón sérstaklega Benedikt Bogason, sem þá var héraðsdómari en varð síðar Hæstaréttardómari.

Dómsmorð

Á næstu árum hafi svo fallið dómar sem hafi verið sama marki brenndir. Fyrst nefnir Jón dóm Hæstaréttar yfir Baldri Guðlaugssyni, sem var dæmdur til fangelsisvistar fyrir innherjasvik í tengslum við Landsbankann. Telur Jón Steinar að í því máli hafi verið framið dómsmorð, enda hafi Baldur verið dæmdur fyrir háttsemi sem hann var ekki ákærður fyrir. Þar að auki hafi einn dómarinn sem dæmdi hann til refsingarinnar átt umtalsvert hlutafé í Landsbankanum, og glatað því í hruninu. Að mati Jóns blasi við að sá dómari, Viðar Már Matthíasson, hafi af þeim sökum verið vanhæfur til að dæma í málinu og átt að víkja sæti.

Í bókinni rekur Jón Steinar lagareglur um umboðssvik og markaðsmisnotkun og tekur dæmi um dómsmál þar sem hann telur Hæstarétt hafa teygt eða rangtúlkað lagaákvæði til að koma hrunverjum í steininn. Varðandi umboðssvikamál tekur Jón sem dæmi dómsmál gegn fyrrverandi bankastjórum Landsbankans, máli sem kennt var við Imon. Þar hafi engum skilyrðum umboðssvikaákvæðis laga verið fullnægt. Ákærðu hafi í því máli farið eftir reglum bankans, ekki valdið bankanum neinum skaða og ekki haft neinn ásetning um að hafa fé af bankanum. Engu að síður hafi þau verið dæmd til fangelsisvistar. Hvað þetta mál varðar bendir Jón Steinar aftur á að meðal þeirra sem dæmdu í málinu hafi verið þeir Viðar Már Matthíasson og Eiríkur Tómasson, sem báðir höfðu átt hlutafé í Landsbankanum og glatað þeim fjármunum við fall bankans.

„Maðurinn ber greinilega mikinn kala til mín“

Jón Steinar hefur á síðustu árum gagnrýnt störf og dómara Hæstaréttar, bæði í ræðu og riti, en meginþungi gagnrýni hans hefur beinst að Markúsi Sigurbjörnssyni, sem hefur lengst af setið sem forseti réttarins. Í bók Jóns Steinars heldur hann áfram að hnýta í Markús og gefur frekar í ef eitthvað er. Sem dæmi segir í bók Jóns: „Hann virðist í forsetatíð sinni einatt hafa látið persónulega afstöðu sína til annarra manna ráða úrslitum við stjórntökin á dómstólnum. […] Maðurinn ber greinilega mikinn kala til mín. […] Allir burðugir menn í hans sporum, sem talið hefðu mig fara villur vegar, hefðu reynt að andmæla mér með rökstuddum hætti. […] En þessi dómsforseti sinnti ekki þeirri skyldu. Hann kunni og kann sjálfsagt enn ekkert annað en að þegja þunnu hljóði, sama á hverju gengur.“

Baugsmálin aftur á kreik

Í bókinni rekur Jón jafnframt þá fjölmiðlaumfjöllun sem fór fram í lok árs 2016 um fjármálaumsvif tiltekinna dómara Hæstaréttar á árunum fyrir bankahrun. Telur Jón að þeir dómarar sem hafi verið þátttakendur í „hrunadansi markaðarins“ geti ekki talist trúverðugir til að dæma um sakir bankamanna í eftirmála hrunsins, þeir hafi verið vanhæfir. Þar hafi Markús verið stórtækastur þeirra allra en hafi þrátt fyrir það ekki vikið sæti í dómsmálum sem vörðuðu bankana eftir hrun. Raunar gengur Jón lengra hvað varðar Markús og telur hann vegna fjármálaumsvifa sinna hafa verið vanhæfan til að sitja í dómi í öllum málum varðandi bankana, einnig í málum sem voru til meðferðar fyrir hrun. Þannig vekur Jón athygli á því að Markús hafi dæmt í hinum svokölluðu „Baugsmálum“ á árunum 2005-2006, þar sem rétturinn hafi að mestu leyti vísað frá ákærum á hendur fyrirsvarsmönnum Baugs. Á sama tíma hafi Markús átt töluvert stóran hlut í Glitni, sem aðaleigendur Baugs réðu að mestu. Á þeim grunni telur Jón að grunsemdir vakni um að Markús hafi átt fjárhagsmuni sem tengdust sakborningum í Baugsmálinu án þess að nokkur hafi vitað af því.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt