Rosenberg hefur lengi verið einn hornsteinninn í tónlistarlífi Reykjavíkur. Staðurinn var fyrst til húsa í Lækjargötu, flutti eftir bruna 2007 á Klapparstíg. Þarna hefur mátt heyra alls kyns músík, djass, popp, vísnasöng, jólatónlist. Þarna hafa komið fram frægir tónlistarmenn, algjörlega ófrægir og allt þar á milli, ungir og aldnir.
Þórður Pálmason og Auður Kristmannsdóttir ráku af mikilli elju og alúð í langan tíma, en seldu hann loks. Bjartsýnir menn keyptu staðinn og ætluðu honum allt annað hlutverk með matarveitingum, morgunverði og grænmetisfæði. En tónlistin átti að halda áfram. Þetta var rekið í þrot á mjög skömmum tíma.
Þá koma aðrir lukkuriddarar, kaupa staðinn og segjast ætla að opna „alvöru írskan pöbb“. Írskan pöbb! Er eitthvað til leiðinlegra en írskir pöbbar?
Þeir eru eins og vinur minn segir – „lundabúð drykkjubúllanna“.
Þetta eru sorgleg örlög mikilvægs tónlistarstaðar sem var næstum orðinn fornfrægur á íslenskan mælikvarða.