fbpx
Sunnudagur 24.nóvember 2024
Eyjan

„Sértrúarsöfnuður stjórnarskrársinna mun sprengja næstu ríkisstjórn“

Egill Helgason
Laugardaginn 7. október 2017 13:16

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Samkvæmt skoðanakönnuninni sem birtist í Morgunblaðinu í dag gætu Vinstri græn, Samfylking og Píratar myndað ríkisstjórn. Meirihlutinn yrði ekki mikill, ekki nema 33 þingmenn af 63, slík stjórn gæti riðað til falls við minnstu ágjöf. Björt framtíð og Viðreisn eru úti – varla myndu þessir flokkar kalla á Miðflokkinn eða Flokk fólksins til að

Katrín Jakobsdóttir, sem er í dauðafæri að verða önnur konan til að verða forsætisráðherra á Íslandi, ætlar ekki að skemma fyrir sér með yfirlýsingu um að hún sé ákveðin að vinna með vinstri flokkunum eftir kosningarnar. Hún er varla búin að gleyma atburðarásinni síðast þegar Píratar stilltu vinstri flokkunum upp við vegg og myndir af forystumönnunum birtust þar sem þeir voru að koma út af fundi á Lækjarbrekku.

Hún passar sig að útiloka ekki samstarf við Sjálfstæðisflokkinn. Þar er eina tveggja flokka ríkisstjórnin sem er í sjónmáli, með 34 þingmenn. En að því sögðu er ekki sérstaklega líklegt að hún fari þá leið nema ekkert annað sé í boði – eins og Styrmir Gunnarsson sagði í síðasta Silfri er of mikil andstaða við slíkt samstarf í baklandi VG. En taktík Katrínar er samt að halda öllu opnu.

Ekkert ætti að vera því til fyrirstöðu að hún kallaði Framsóknarflokkinn inn í ríkisstjórn. Það gæti hins vegar verið fyrirstaða gegn því hjá Pírötum – og svo er auðvitað möguleiki að Framsóknar bíði slíkt afhroð að hún vilji ekki í ríkisstjórn.

Eitt af þeim málum sem þvælist fyrir er stjórnarskráin. VG-arar hafa ekki verið sérlega heitir í stjórnarskrármálum, en það eru Píratar. Þeir gætu sett fram kröfur um stjórnarskrána sem gerðu stjórnarsamstarf mjög erfitt. Um þetta skrifar bókaútgefandinn Kristján B. Jónasson á Facebook:

Sértrúarsöfnuður stjórnarskrársinna mun sprengja næstu ríkisstjórn. Fremur en að styðja vinstri stjórn mun þessi fanatíski hópur fremur spengja allt til að viðhalda þráhyggju sem minnihluti kjósenda hefur áhuga á.

Þessi skrif vekja að vonum deilur, eins og alltaf þegar minnst er á stjórnarskrána. Gauti Kristmannsson dósent skrifar:

Málið er að það fór fram þjóðaratkvæðagreiðsla sem hefur hreinlega verið hunsuð; það er ótrúleg fyrirlitning á þjóðinni sem birtist í því athafnaleysi og kallar kannski á viðbrögð í samræmi við það. Einnig er þetta enn eitt dæmið um vangetu stjórnmálamanna til að klára það sem liggur fyrir og vitað er að stór meirihluti er á bak við.

En Kristrún Heimisdóttir, lögfræðingur, sem eitt sinn starfaði í Samfylkingunni, svarar:

Úrslitaástæðan er sú að það var ekki fullbúin stjórnarskrá lögð fram í atkvæðagreiðslunni heldur spurt um stuðning við að tillögur yrði lagðar til grundvallar. Þetta voru þessvegna ekki lyktir máls eins og aðrar þjóðaratkvæðagreiðslur Íslandssögunnar heldur rembihnútur eins og flugvallarkosningin um árið. Í stað þess að viðurkenna þessa staðreynd er svikabrigslum úðað yfir stjórnmaálafólk, nú síðast Katrínu Jakobsdóttur – og af því er nákvæmlega ekkert gagn.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: „Fake News“, „Fake Stories“, eru eitt stórfelldasta og hættulegasta vandamál okkar tíma

Ole Anton Bieltvedt skrifar: „Fake News“, „Fake Stories“, eru eitt stórfelldasta og hættulegasta vandamál okkar tíma
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Ágúst Borgþór skrifar: Er hægt að létta þessari martröð af þjóðinni?

Ágúst Borgþór skrifar: Er hægt að létta þessari martröð af þjóðinni?