SÁÁ býður Noru Volkow á ráðstefnu í tilefni af fjörutíu ára afmæli hinna merku samtaka. Hún er geðlæknir sem rannsakar fíkn og maður sér ekki betur en að henni hafi mælst vel í þessari frétt á Vísi. Hún segir til dæmis að líkurnar því að verða fíkill í áfengi eða eiturlyf aukist því fyrr sem fólk byrjar að nota efnin.
Það skiptir semsagt sköpum að hamla gegn neyslu unglinga og ungmenna.
Nora er annars af mexíkóskum ættum, hún er afar virtur vísindamaður á sviði fíknifræða, flutti til Bandaríkjanna og varð forstjóri NIDA, National Institute of Drug Abuse.
Fyrir áhugamenn um sögu og stjórnmál er bakgrunnur Noru Volkov nokkuð forvitnilegur. Langafi hennar var hinn frægi byltingarmaður Lev Trotskí sem var einn helsti forsprakki bolsévíkabyltingarinnar í Rússlandi, valdamaður í Sovétríkjunum þangað til Stalín rak hann úr landi og lét loks elta hann uppi og drepa hann í Mexíkó 1940.
Amma Noru var Zinaida Volkova, elsta dóttir Trotskís, en faðir hennar var Esteban Volkov. Nora ólst upp í Coyoacán-hverfinu í Mexíkóborg, í húsinu þar sem Trotskí var myrtur með ísexi.
Stalín hataðist svo við Trotskí að hann lét líka myrða fyrri konu hans, systur hans, bróður hans, einn son hans, tvo tengdasyni, að ótöldum öðrum ættingjum. Faðir Noru var skotinn í fótinn í misheppnaðri morðtilraun gegn Trotskí, þá var hann unglingur.
Þetta er forvitnileg saga, hér má lesa grein frá 2003 um Esteban, föður Noru. Faðir hans, Platon, var fluttur í Gúlagið og síðar skotinn. Móðir hans, Zinaida, amma Noru, fyrirfór sér í París 1933. Þá bjó Esteban hjá Lev Sedov, syni Trotskís, móðurbróður sínum. Það var var eitrað fyrir Sedov í París 1938. Ári síðar var Esteban smyglað frá Frakklandi af vinum Trotskís og til Mexíkó kom hann 1939. Þar fékk hann þetta nafn, á rússnesku kallaðist hann Vsevolod.
Esteban var á leiðinni heim úr skóla þegar hann sá að margir bílar voru umhverfis húsið. Hann fylltist ótta, fór inn í garðinn og sá lögreglumenn sem héldu morðingjanum, Ramon Mercader, föstum. Hann fór svo inn í skrifstofu afa síns og sá hann liggjandi þar á gólfinu, svo var hann dreginn burt, einhver sagði að barnið mætti ekki horfa á þetta.
Nora Volkow.
Lev Trotskí, síðari kona hans Natalia Sedova og unglingurinn Esteban, faðir Noru.