Innhringjendur á Bylgjunni og Útvarpi Sögu eru nokkuð eindregið á því að sigurvegarar kosninganna eigi að vera í ríkisstjórn, þ.e. Miðflokkurinn og Flokkur fólksins. Þetta mátti heyra í morgun. Þá yrði stjórnarmynstrið líklega Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur, Miðflokkur og Flokkur fólksins.
Spurning hvort það takist? Maður skynjar nokkuð óþol milli Sigurðar Inga Jóhannssonar og Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Og líklega myndi fyrsti kostur Bjarna Benediktssonar vera stjórn með Vinstri grænum og Framsókn. Það er hin breiða stjórn sem nú er talað um.
En hverjir eru möguleikarnir á ríkisstjórn sem Katrín Jakobsdóttir leiðir? Hún myndi þurfa Samfylkinguna, Framsókn, Pírata – og væntanlega Viðreisn líka. (Ólíklegra að það væri flokkur fólksins.)
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir gaf upp boltann með slíka stjórn í Silfrinu í gær. Hún sagði að hún vildi taka þátt í að mynda stjórn um jafnréttismál. Nú veit maður ekki hvað hinir flokkformennirnir hafa kveikt á þessu, en þetta segir Þorgerður á sama tíma og stór hópur karla kemur inn á þing á hægri vængnum.
Manni sýnist að þarna gæti verið tækifæri Katrínar Jakobsdóttur – að mynda stjórn sem hefur mikla og sterka jafnréttisáherslu og samanstendur aðallega úr konum. Kannski þyrftu ekki að vera nema tveir karlar í henni, í mesta lagi þrír?
Stjórn af þessu tagi myndi vegna samsetningar sinnar geta fengið mikinn meðbyr í upphafi, hún myndi jafnvel vekja heimsathygli – en hún yrði líka að leggja áherslu á fá og mikilvæg mál, það sem sameinar fremur en sundrar. Eftir stjórnarslitin í september eru flokkar heldur varla jafn gjarnir á að hlaupa burt og síðast.
En það verður forvitnilegt að sjá hvað kemur út úr viðræðunum flokksformannanna við forsetann. Nær Bjarni umboðinu eða getur Katrín sannfært hann um að hún eigi möguleika á að koma saman stjórn. Til þess þarf Katrín að sýna ákveðin klókindi – sem kannski hafa ekki verið hennar sterka hlið til þessa.