Nú eru að birtast síðustu skoðanakannanirnar fyrir kosningarnar, hér er Gallup á RÚV. Kjörstaðir opna eftir um 15 tíma frá því þetta er skrifað. Eins og margir áttu von á er Sjálfstæðisflokkurinn í uppsveiflu miðað við fyrri kannanir – Íslendingum virðist gjarnt að refsa Sjálfstæðisflokknum frekar í skoðanakönnunum en í eiginlegum kosningum. Verði uppsveiflan ekki meiri – sem gæti vel verið – er flokkurinn samt að tapa 4-5 prósentustigum og nokkrum þingmönnum. Það er lök útkoma á góðæristíma, hugsanlega þriðja versta kosning flokksins í sögunni.
Nái Bjarni Benediktsson ekki inn í ríkisstjórn er líklegt að dagar hans á formannsstóli séu taldir. Það er óvenjuleg staða fyrir formann Sjálfstæðisflokksins að ríkja í tíu ár en ná ekki að vera forsætisráðherra nema í eitt ár. En það verður forvitnilegt að sjá hverjum Guðni Th. Jóhannesson afhendir stjórnarmyndunarumboð í næstu viku. Bjarni gæti reynt að mynda DCBM ríkisstjórn, en það virðist þó ansi fjarlægur kostur. Verði Sjálfstæðisflokkurinn langstærstur getur verið erfitt fyrir forsetann að ganga framhjá Bjarna.
Aldursskipting kjósenda gæti líka skilað Sjálfstæðisflokknum enn meira fylgi – og Pírötum og VG ennþá minna. Því ættu menn ekki að gleyma. Síðasttöldu flokkarnir hafa mest fylgi meðal ungra kjósenda sem skila sér illa á kjörstað, Sjálfstæðisflokkurinn er sterkastur meðal eldra fólks.
En niðursveifla Vinstri grænna er athyglisverð. Fyrir stuttu leit út fyrir að flokkurinn yrði fyrir ofan Sjálfstæðisflokkinn í kosningunum. Þetta virðist borin von nú. Talsvert af kjósendum virðast hafa streymt frá VG yfir til Samfylkingar – sem aftur er orðin stjórnmálaafl sem þarf að taka mark á. Hvað fór úrskeiðis? VG hefur rekið kosningabaráttu sem byggir mikið á því að sýna Katrínu Jakobsdóttur. Hún er fjarska vinsæl, en þetta virðist ekki duga til. VG hefur reynt að sigla fremur lygnan sjó í baráttunni – sú strategía virðist hafa misheppnast. Nú er ekki einu sinni víst að VG verði svo ýkja mikið stærri en Samfylkingin.
Katrín er þó ennþá forsætisráðherraefnið. En möguleikarnir á stjórnarmyndum þrengjast um leið og hinn stóri kosningasigur gufar upp. Hún getur varla annað en reynt VSPB eða þá VSPC, en til þess verður hún að sýna meiri myndugleik og snerpu en eftir síðustu kosningar. Hún þarf að ná frumkvæðinu strax á sunnudag.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur líka hamast á Vinstri grænum svo annað eins hefur varla sést áður. Fyrrum var það Samfylkingin sem var höfuðóvinur Sjálfstæðisflokksins. Nú hefur áróðurinn dunið á VG. Hinar nafnlausu netauglýsingar eru sérkapítúli í kosningabaráttunni. Píratinn Helgi Hrafn Gunnarsson skrifar um „árásarauglýsingar“ í pistli . Það er greinilegt að miklir peningar hafa verið settir í svona auglýsingar og þá ekki síður í mjög víðtæka birtingu þeirra. Ekki hefur komið fram hverjir eru þarna að baki. Helgi hefur efni á að skrifa um þetta, því Píratar hafa rekið sérlega kurteislega kosningabaráttu.
Stjórnmál eiga að byggja á gildismati, rökfærslum, staðreyndum og leitan að hinu rétta, en ekki því hversu duglegir flokkar eru við að fjármagna faglega úthugsað skítkast og kjaftæði um andstæðinga sína.