fbpx
Miðvikudagur 17.júlí 2024
Eyjan

Er hægri stjórn að skjóta upp kollinum?

Egill Helgason
Mánudaginn 23. október 2017 22:37

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Miðflokkurinn tekur fylgi frá Framsókn og Sjálfstæðisflokki og fer með himinskautum í nýrri skoðanakönnun MMR með 12,3 prósenta fylgi (það verður reyndar að segjast eins og er að skoðanakannanirnar eru óþolandi misvísandi). En samkvæmt könnuninni eru þessir þrír flokkar samanlagt með 44 prósenta fylgi.

Flokkur fólksins er aftur í færi að komast inn á þing, vantar sáralítið upp á, og verður að teljast sennilegt að það gerist sökum þess að fylgismennirnir eru mestanpart eldra fólk sem skilar sér fremur á kjörstað en hið yngra.

Vinstri græn eru hins vegar að gefa verulega eftir og verða máski ekki stærsti flokkurinn eins og stefndi í um tíma. Það má jafnvel spyrja hvort nú séu ekki álíka miklar líkur á hægri og vinstri stjórn. Ef í harðbakkann slær ættu Sjálfstæðisflokkurinn, Miðflokkurinn, Framsókn og FF að ná saman. Það verða þá frekar persónur sem standa í veginum og sært stolt en málefni. En Sjálfstæðisflokkur og Framsókn eru ekki stjórnmálaöfl sem gefa eftir stjórnarsetu ef hún er á annað borð í boði.

Fyrir Katrínu Jakobsdóttur er pólitísk nauðsyn að komast í stjórn. Því hefur verið spáð hér áður að það takist ekki með þremur flokkum. Samkvæmt skoðanakönnun MMR hafa VG, Samfylking og Píratar minna fylgi en Sjálfstæðisflokkurinn, Miðflokkurinn og Framsókn. Til að Katrínu megi takast að mynda stjórn þarf Framsóknarflokkurinn líka að vera með – eða kannski myndi Viðreisn duga. En þetta gæti verið erfið stjórnarmyndun. Þarna eru býsna ólík sjónarmið sem þarf að sætta.

Þær ríkisstjórnir sem eru nefndar hafa allar tæpan meirihluta – nema verði beinlínis farið út í fimm flokka stjórn. Til tals hefur komið möguleikinn á minnihlutastjórn, til dæmis stjórn Vinstri grænna með hlutleysi nokkurra flokka. Það verður satt að segja að teljast ólíklegt. Engin hefð er fyrir minnihlutastjórnum á Íslandi og líklegt að slík stjórn yrði mjög ótraust og ekki nema til bráðabirgða. Það er heldur ekki líkt íslenskum stjórnmálaflokkum að taka ábyrgð á ríkisstjórnum án þess að fá ráðuneyti í sinn hlut.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 6 dögum

Þingflokksformaðurinn leiðréttir rangfærslu um Samfylkinguna og biðst afsökunar

Þingflokksformaðurinn leiðréttir rangfærslu um Samfylkinguna og biðst afsökunar
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Þorsteinn Pálsson: Þingmenn Sjálfstæðisflokksins skattleggja gamla fólkið fremur en að tryggja jafnræði allra á fjármálamarkaði

Þorsteinn Pálsson: Þingmenn Sjálfstæðisflokksins skattleggja gamla fólkið fremur en að tryggja jafnræði allra á fjármálamarkaði
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Svarthöfði skrifar: Stígum skrefið til fulls og afnemum samkeppnina alls staðar – fyrir neytendur

Svarthöfði skrifar: Stígum skrefið til fulls og afnemum samkeppnina alls staðar – fyrir neytendur
Eyjan
Fyrir 1 viku

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Fjölmargar þjóðir með meiri – miklu meiri – kaupmátt en við – það er von að Bjarni Ben sé ánægður og stoltur

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Fjölmargar þjóðir með meiri – miklu meiri – kaupmátt en við – það er von að Bjarni Ben sé ánægður og stoltur