Hér eru ansi merkilegar upplýsingar sem eru unnar upp úr skoðanakönnun Félagsvísindastofnunar um fylgi flokkanna sem birtist 13. október. Upplýsingarnar eru greindar á vef sem kallast Datasmoothie – það er hægt að gramsa í þessum gögnum á ýmsa vegu eftir kyni, aldri og búsetu.
Fyrst er áhugavert að sjá fylgi flokkanna eftir kyni. Hjá konum eru Vinstri græn langhæst, með 38,6 prósent. Sjálfstæðisflokkurinn höfðar miklu síður til kvenna, hann er með 19,6 prósent.
Þvínæst er fylgið meðal karla. Þar er Sjálfstæðisflokkurinn efstur, með 25,5 prósent en VG ekki með nema 18,7 prósent. Við tökum líka eftir því að bæði Miðflokkurinn og Píratar hafa mun meira fylgi meðal karla en kvenna.
Svo er að skoða aldursskiptinguna. Þetta eru kjósendur sem eru komnir yfir sextugt. Þar hefur Sjálfstæðisflokkurinn mest fylgi, 25,9 prósent og þar er Samfylkingin líka sterk með 21,8 prósent. Píratar hafa afar lítið fylgi meðal eldri kjósenda, en þarna er Flokkur fólksins sterkastur.
Þetta er aldurshópurinn 30 til 44 ára. Það er þarna að Sjálfstæðisflokkurinn stendur veikast samkvæmt könnun Félagsvísindastofnunar með 17,3 prósent. VG er með 33,7 prósent.
Hér má sjá fylgi meðal ungra kvenna á aldrinum 18 til 29 ára. Þarna fer VG langleiðina með að ná helmingsfylgi, er með 43,1 prósent en Sjálfstæðisflokkurinn með 17,8.
Loks má hér sjá fylgi flokkanna meðal karla sem eru komnir yfir sextugt. Þarna er sterkasta vígi Sjálfstæðisflokksins, samkvæmt könnuninni. Hann er með 27,3 prósent en VG með 17,8 prósent, og lægri en Samfylkingin sem er með 19,9 prósent.