Hver skoðanakönnunin á fætur annarri bendir til þess að mjög erfitt verði að mynda ríkisstjórn eftir kosningarnar. Menn gefa sér að Vinstri græn, Samfylking og Píratar muni vinna saman ef flokkarnir fá meirihluta á þingi. En í raun er ólíklegt að svo verði, meirihlutinn yrði þá í mesta lagi einn þingmaður.
Á hægri vængnum er þetta enn flóknara. Þar er í raun ekki hægt að sjá neina ríkisstjórn. Framsóknarflokkurinn getur tæplega unnið með Miðflokknum og Viðreisn myndi vera mjög hikandi að setjast í ríkisstjórn með honum.
Eina von Sjálfstæðisflokksins um að komast í ríkisstjórn er að Vinstri græn fari með honum. Það er fjarlægur draumur – og enn fjarlægari eftir lögbannið sem sett var á Stundina og fréttaflutninginn af Bjarna Benediktssyni í blaðinu. Katrín Jakobsdóttir og Bjarni Benediktsson eru í ágætu sambandi en hún getur varla tekið þá áhættu að stuttu eftir að hún myndar ríkisstjórn með honum fari að birtast fleiri fréttir af fjármálavafstri hans.
Í baklandi VG í Reykjavík er fullkomin andstaða gegn því að fara í stjórn með Sjálfstæðisflokki, þótt önnur viðhorf kunni að vera uppi úti á landi.
Þetta veldur því að tveir litlir flokkar verða máski í oddastöðu eftir kosningarnar. Bæði Framsóknarflokkur og Viðreisn eiga eftir að tapa illa og ná kannski ekki nema fáum mönnum inn á þing. En tilurð ríkisstjórnar gæti oltið á öðrum hvorum flokknum.
Hvor þeirra er tilbúinn að fara í ríkisstjórn undir forsæti Kötu Jak?