Í nútímasamfélagi finnst manni fátt tilgangslausara en þóttafullir embættismenn. Á árum áður var landið fullt af slíkum mönnum, en almennt held ég að ástandið hafi skánað í þessum efnum.
Sýslumaðurinn í Reykjavík kemur á fund þingnefndar vegna lögbannsins á Stundina. Hann er spurður um álit sitt á erindi sem barst um lögbannið frá Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu. Íslendingar eru aðilar að þessari stofnun.
Sýslumaðurinn segist ekki hafa séð yfirlýsinguna – af því hún var ekki send honum sérstaklega. Því segist hann ekki vita hvað var í þessu skjali. Það virkar á mann eins og honum þyki þetta voða flott hjá sér.
Fréttir af yfirlýsingu ÖSE voru í öllum fjölmiðlum í gær. Það er ekki beinlínis erfitt að finna þær á netinu. Með einum til tveimur smellum hefði sýslumaðurinn getað kynnt sér málið – og búið sig þannig undir fundinn með nefndinni.