Eiríkur Jónsson birtir litla grein um eina af mínum uppáhaldsbúðum, hún er á horninu á Grundarstíg og Skálholtsstíg. Einu sinni var þarna vídeóleiga og sjoppa, en nú er þetta fremur lítil hverfisverslun sem er opin langt fram á kvöld.
Þarna vinna sérstök ljúfmenni þegar ég kem þangað á kvöldin. Ungir menn og afar kurteisir. Tónlistarvalið er einstakt og stundum lendir maður á spjalli um snillinga eins og Bob Dylan og Neil Young.
Bónus er orðin aðalhverfisbúðin, en það er líka bónus að búa þar sem maður þekkir fólkið sem maður hittir og það þekkir mann, í búðunum, á kaffihúsunum, þá sem bera út póstinn og jafnvel stöðumælaverðina.