Í Rússlandi ríkir hálf-fasísk stjórn sem virðir tjáningar- og stjórnmálafrelsi að vettugi, níðist á stjórnarandstæðingum, lokar fjölmiðlum sem eru andsnúnir henni og ofsækir fjölmiðlamenn. Stjórnin er byggð upp á samkrulli fyrrum KGB-manna og ólígarka, ótrúlegum fjárhæðum hefur verið skotið undan – óvíða í heiminum er jafn himinhrópandi ójöfnuður. Ekki má heldur gleyma Úkraínumálinu. Halldór Baldursson kom inn á það í eitraðri skopmynd í Fréttablaðinu, ég veit hann erfir það ekki við mig þótt ég sýni myndina hér.
Það er auðvitað hneyksli að íþróttastórmót eins og heimsmeistarakeppni í fótbolta skuli vera haldið í Rússlandi. En fátt kemur á óvart þegar spillingin í alþjóðaknattspyrnunni er annars vegar. Stjórnmálamenn af sauðahúsi Pútíns njóta þess að koma fram með íþróttahetjur í bakgrunninum, það höfum við séð áður.
Rússar munu sjálfsagt reyna að setja upp sparisvipinn – það er reyndar til rússneskt hugtak um slíkt, Pótemkín-tjöld.
En það verður að segjast eins og er að í því felst dálítil hræsni að senda stórt íþróttalið og fjölda af áhorfendum til Rússlands á sama tíma og eru í gildi viðskiptaþvinganir sem valda því að óhægt er að selja þangað fisk og ket.
Þetta á náttúrlega ekki bara við um Ísland, því fjöldi þjóða sem beita Rússa refsiaðgerðum mun keppa á HM næsta sumar. Bandaríkjamenn verða reyndar ekki með, en það er bara vegna þess að þeir duttu úr keppninni í gær.