fbpx
Sunnudagur 24.nóvember 2024
Eyjan

Vanhæft lið á Spáni hleypir öllu í bál og brand

Egill Helgason
Sunnudaginn 1. október 2017 20:44

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það sem er að gerast í Katalóníu er ógnvænlegt. Stundum er talað um að menn sjái bílslys gerast hægt – þetta er ekki ósvipað. Stjórn Katalóníu boðar til atkvæðagreiðslu sem er ólögleg og mikil ögrun. Til hennar er boðað með stuttum fyrirvara, stjórnarandstaðan í héraðinu er andsnúin. Meirihluti Katalana hefur verið á móti sjálfstæði en þeir eru auðvitað ekki sýnilegir á sjónvarpsskermum eins og fólkið sem veifar fánum og fer í fjöldagöngur – eða þeir sem mæta á leiki hjá Barcelona og iðka sína þjóðernisstefnu.

Atkvæðagreiðslan er semsagt verulega óábyrg, hún er sett á svið til að láta skerast í odda – það er líka til sú kenning að ein ástæðan sé til að breiða yfir spillingu og vanhæfi í stjórn Katalóníu. Skoðanakönnun sem birtist í síðustu viku sýndi að meirihluti Katalana sjálfra taldi að ekki væri rétt boðað til atkvæðagreiðslunnar.

En það vantar svosem ekki spillinguna og vanhæfnina í stjórn PP sem ríkir í Madrid yfir öllu landinu. Þetta er veik stjórn, enda hafa tvennar kosningar undanfarin ár á Spáni endað í pattstöðu. Það er ótrúlega misráðið að senda lögreglu til að lumbra á þeim sem vilja greiða atkvæði í Katalóníu. Undireins og myndir af slíku birtast í sjónvörpum heimsins snýst almenningsálitið á sveif með sjálfstæðissinnum og fylgi þeirra eykst. Þannig virðast áform þeirra í raun hafa gengið fullkomlega upp.

Það á eftir að telja upp úr kjörkössum. Alltaf hefur legið fyrir að atkvæðagreiðslan er ómarktæk vegna þess hvernig til hennar er boðað. Það eru engir fyrirvarar um þátttöku. Það er enginn að gæta þess upplýsingaflæðisins, þess að raddir allra aðila heyrist. Áróður sjálfsstæðissinna drekkir öllu öðru. En móralskur sigur Puigdemonts, forseta Katalóniu, vegna viðbragða Spánarstjórnar er slíkur að hann gæti lýst yfir sjálfstæði Katalóníu strax á morgun og fengið talsverðan stuðning erlendis frá.

Það er undarlegt að sjá hluti forklúðrast með þessum hætti í einu þróaðasta og virkasta lýðræðisríki heims. Spánn er mjög frjálslynt ríki og til fyrirmyndar að mörgu leyti. En þarna hafa stjórnmálamenn teymt Spán út í forað –  af undarlegu ábyrgðar- og skeytingarleysi – og maður óttast að ofbeldi muni magnast eftir þetta og að Spánn stórskaðist.

Maður býr auðvitað langt frá Spáni en manni virðist að ein lausnin gæti verið sú að þeir sem bera ábyrgð á þessari atburðarás segi af sér og láti sig hverfa af sviðinu. Það á við um áðurnefndan Puigdemont, sem hefur tekist að hleypa öllu í bál og brand á stuttu valdaskeiði sínu  og Mariano Rajoy, forsætisráðherra Spánar sem hefur haldið svo afleitlega á málum að hann býður beinlinis upp á að vera líkt við Franco, eins sorglegt og það er.

 

Katalanar eru mjög Evrópusinnaðir og sjálfstæðisbarátta þeirra er háð undir þeim formerkjum að þeir verði nýtt ríki í Evrópusambandinu. En þeir munu þurfa að semja um aðild ef þeir ná að slíta sig frá Spáni. Einn meginhvati atkvæðagreiðslunnar er sá að Katalanar telja sig borga meira til Spánar en þeir fá til baka. Svo er reyndar yfirleitt með rík svæði innan stærri ríkisheilda. En sem auðugt aðildarríki Evrópusambandsins munu þeir líklega þurfa að borga meira til snauðra Austur-Evrópuþjóða en til Andalúsíu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Orðið á götunni: Sigurður Ingi ræðst á Bjarna Ben – „Þegar ölið er af könnunni er vináttan úti“

Orðið á götunni: Sigurður Ingi ræðst á Bjarna Ben – „Þegar ölið er af könnunni er vináttan úti“
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Óánægjan með Einar og meirihlutann í borginni fer vaxandi en flokkarnir tapa mjög misjafnlega á því

Óánægjan með Einar og meirihlutann í borginni fer vaxandi en flokkarnir tapa mjög misjafnlega á því
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Sigmundur Davíð vísar frétt Vísis á bug – „Það er stuð á Akureyri!“

Sigmundur Davíð vísar frétt Vísis á bug – „Það er stuð á Akureyri!“
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Sigmundur Davíð um slaufun Þórðar Snæs – „Þeir sem eru fyrstir til að kasta steinunum það eru yfirleitt ekki þeir syndlausu“

Sigmundur Davíð um slaufun Þórðar Snæs – „Þeir sem eru fyrstir til að kasta steinunum það eru yfirleitt ekki þeir syndlausu“