Fjárfestarnir Hallbjörn Karlsson og Árni Hauksson hafa selt hlut sinn í Morgundegi, útgáfufélagi Fréttatímans. Kaupendur eru aðrir hluthafar, Sigurður Gísli Pálmason kaupsýslumaður kenndur við Hagkaup og IKEA, Valdimar Birgisson framkvæmdastjóri og Gunnar Smári Egilsson ritstjóri.
Frá þessu er greint í Fréttatímanum, sem dreift er í hús á morgun en hefur verið birtur á Netinu.
Árni Hauksson hættir jafnframt sem stjórnarformaður Fréttatímans og við tekur Gunnar Smári Egilsson. Hann er er því ritstjóri, útgefandi og stjórnarformaður blaðsins eftir breytingarnar.
Í Fréttatímanum segir að þeir Árni og Hallbjörn selji af persónulegum ástæðum.
Vísir greindi frá því fyrr í dag, að Óskar Hrafn Þorvaldsson, vefstjóri Fréttatímans, hefði sagt upp störfum.