Heildarútgjöld erlendra ferðamanna hér á landi hækkuðu um rúm 33 prósent milli ára árin 2014 til 2015, á sama tíma fjölgaði ferðamönnum um 27%. Útgjöld til farþegaflutninga drógust saman milli ára en hlutdeild gistiþjónustu fór vaxandi. Þetta kemur fram í töflum um ferðaþjónustureikninga sem birtir eru á vef Hagstofu Íslands.
Heildarútgjöld erlendra ferðamanna hér á landi námu ríflega 263 milljörðum króna árið 2015 samanborið við ríflega 197 milljarða króna árið 2014. Hlutdeild útgjalda vegna farþegaflutninga með flugi í heildarútgjöldum erlendra ferðamanna hefur dregist saman síðustu ár, var 28,9% árið 2009 en 21,9% árið 2015. Á sama tíma hefur hlutdeild gistiþjónustu farið vaxandi í heildarútgjöldum erlendra ferðamanna á Íslandi, en hún var 21,3% árið 2015, samanborið við 18,8% árið 2009.
Árið 2015 var heildarfjöldi ferðamanna 1.587.071. Þar af voru 297.946 daggestir með skemmtiferðaskipum en þeim fjölgaði um 18% frá árinu 2014. Fjöldi næturgesta var 1.289.125 og voru þeir 29% fleiri en árið áður, alls fjölgaði erlendum ferðamönnum um tæplega 27% samanborið við árið áður. Á árunum 2010 til 2013 hækkaði hlutfall ferðaþjónustunnar af vergri landsframleiðslu um 1,3 prósentustig.