Donald Trump Bandaríkjaforseti átti í dag, laugardag, sitt fyrsta samtal eftir hann settist í forsetastólinn við Vladimir Pútín forseta Rússlands. Þjóðaleiðtogarnir ræddu saman símleiðis í 45 mínútur og komu víða við.
Samkvæmt tilkynningu sem rússnesk stjórnvöld hafa birt þá voru forsetarnir sammála um að samband ríkja þeirra væri „gersamlega óásættanlegt.“ Báðir lýstu yfir vilja til að bæta samskiptin og auka samvinnu.
Eftir að hafa óskað Trump enn og aftur hamingju með sigurinn í forsetakosningunum tók Pútín sérstaklega fram að hann væri reiðubúinn að þróa vinsamleg samskipti við ný stjórnvöld í Bandaríkjunum á grundvelli jafnræðis, gagnkvæmrar virðingar og að þjóðirnar hefðu engin afskipti af innanríkismálum hvorra annarra.
Ósagt skal látið hvort síðustu orðin hafi verið látin falla í ljósi ásakana um að Rússar hafi haft áhrif á niðurstöður bandarísku forsetakosninganna.
Leiðtogarnir munu auk þessa meðal annars hafa rætt um nánari samvinnu í baráttunni við alþjóðleg hryðjuverkaöfl. Þar var efalítið átt við íslamska hryðjuverkamenn. Sömuleiðis töluðu þeir um nauðsyn þess að finna lausn á stríðinu í Sýrlandi. Einnig ræddu þeir málefni Úkraínu. Deilur um þau mál hafa meðal annars leitt til viðskiptabanna milli Rússlands og vestrænna þjóða, þar með talið Íslands.
Donald Trump hringdi í fleiri. Alls átti hann símasamtöl við fimm þjóðarleiðtoga í dag. Hann ræddi við Shinzo Abe forsætisráðherra Japan, og síðan ræddi hann í þrjá stundarfjórðunga við Angelu Merkel kanslara Þýskalands. Ekki hefur verið gefið upp hvað þeim fór á milli. Trump mun einnig hafa talað við Francois Hollande Frakklandsforseta og Malcolm Turnbull forsætisráðherra Ástralíu.
Til viðbótar þessu undirritaði Bandaríkjaforseti þrjár nýjar tilskipanir við skrifborð sitt í Hvíta húsinu í Washington. Sú fyrsta varðar framlenginu á banni við að bandarískir embættismenn starfi einnig fyrir þrýsti- og hagsmunahópa. Önnur tilskipunin snýr að því að styrkja starfsemi stofnana sem sinna öryggismálum Bandaríkjanna bæði innanlands og erlendis.
Fullt af auknu öryggi. Við erum búin að tala um að gera þetta lengi, í mörg ár,
sagði forsetinn þegar hann undirritaði þessa tilskipun.
Trump greindi frá því að þriðja og síðasta tilskipun dagsins feli í sér áform um það hvernig Bandaríkin ætli að vinna bug á hinu svokallaða Íslamska ríki (ISIS) í Írak og Sýrlandi. Í henni eru meðal annars fyrirmæli til Herforingjaráðs Bandaríkjanna að leggja fram áætlun innan 30 daga um það hvernig ISIS verði gersigrað. Trump hefur áður ítrekað lýst því yfir að hann ætli að afmá hryðjuverkasamtökin af yfirborði jarðar.
Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur nú undirritað 17 forsetatilskipanir síðan hann tók við embætti fyrir níu dögum. Hafa margar þeirra valdið írafári. New Gingrich flokksbróðir Trump, fyrrum þingmður og forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings segir í pistli á Fox News að vinstri menn eigi að vera skelfingu lostnir eftir fyrstu viku Trumps í forsetastólnum. Þó hafi Donald Trump í reynd ekki gert neitt annað en að standa við loforð sín úr langri og strangri kosningabaráttu. Hann hafi framkvæmt fátt sem eigi að koma á óvart:
Elítuvinstrið og áróðursmenn þeirra í fjölmiðlum eru nú þegar í móðursýkiskasti eftir fyrstu viku Trump í embætti,
skrifar Newt Gingrich meðal annars.