Einkahlutafélagið MJDB vill kaupa Hellisheiðarvirkjun af Reykjavíkurborg, Akraneskaupstað og Borgarbyggð. Sveitarfélögin þrjú hafa fengið kauptilboð í eignarhluti sína en Orkuveita Reykjavíkur (OR) hafnaði um miðjan desember tilboði sama félags í virkjunina í annað sinn.
Frá þessu er greint í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti í dag. Þar segir að forsvarsmenn sveitarfélaganna fundi um málið á næstu vikum.
MJDB er að stærstum hluta í eigu Magnúsar B. Jóhannessonar, framkvæmdastjóra hjá America Renewables í Kaliforníu, en lögmannsstofan Lagahvoll er skráð fyrir 30 prósentum.
Hellisheiðarvirkjun er í eigu Orku náttúrunnar (ON), dótturfélags Orkuveitu Reykjavíkur (OR). Reykjavíkurborg á 93,54 prósenta hlut í OR, Akraneskaupstaður 5,53 prósent og Borgarbyggð 0,93 prósent. Samkvæmt upplýsingum frá Orkuveitu Reykjavíkur hefur ekki farið fram verðmat á Hellisheiðarvirkjun. Bókfært virði virkjana ON í árslok 2015 var um 950 milljónir Bandaríkjadala eða 107 milljarðar króna miðað við núverandi gengi.