Fyrsta Kilja vetrarins er á dagskrá Rúv í kvöld klukkan 20.30.
Við fjöllum um nýja ljóðabók eftir Kristínu Ómarsdóttur sem hefur vakið mikla athygli, Köngulær í sýningagluggum heitir hún. Sýnum bráðskemmtilegt viðtal við Kristínu.
Finnski höfundurinn Tapio Koivukari – sem er almæltur á íslensku, enda fyrrverandi smíðakennari á Ísafirði – segir frá skáldsögu sinni Prédíkarastelpunni en hún hlaut ein virtustu bókmenntaverðlaun Finnlands, Runeberg verðlaunin. Bókin gerist á tíma Kalda stríðsins og segir frá því þegar guðsorð fer að renna upp úr stelpunni Tuulikki í svefndái. Tapio er menntaður guðfræðingur og hann segir að þetta byggi að að dálitlu leyti á sinni eigin reynslu.
Bubbi Morthens er í viðtali um Hreistur, ljóðabókina sem hann yrkir um ár sín í verbúðum en þar mótaðist Bubbi sem listamaður. Má kannski segja að þar séu háskólar hans.
Sölvi Sveinsson segir frá bók sinni Gleymdur og geymdur orðaforði. Þetta er afar fróðlegt uppsláttarrit um orð sem koma fyrir í fornmáli og afdrif þeirra – og hvernig merking sumra þeirra hefur breyst.
Við tölum um Sigurð Pálsson en hans minntist ég í pistli um daginn. Við sínum brot úr nýrri heimildamynd um Sigurð. Ekki má gleyma Vladimir Nabokov, höfundi skáldsögunnar Pnin sem er komin út á íslensku. Nabokov var furðumaður, landflótta Rússi sem fór að skrifa á ensku, rithöfundur en líka fiðrildasafnari og höfundur skákþrauta.
Í lok þáttar förum við á bókmenntaslóðir á Snæfellsnesi, nánar tiltekið í Dritvík.