fbpx
Sunnudagur 24.nóvember 2024
Eyjan

Skammlífasta samsteypustjórn sögunnar – hverjir geta myndað nýja stjórn eða verður efnt til kosninga?

Egill Helgason
Föstudaginn 15. september 2017 08:12

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Maður vaknar við það að ríkisstjórnin er sprungin. Björt framtíð er farin. Ekki er maður spámannlega vaxinn, ég hélt að ríkisstjórnin myndi lafa áfram einhver misseri. Illar tungur segja ábyggilega að þarna hafi Björt framtíð fundið tækifæri til að slíta stjórnarsamstarfi sem henni var ekki sætt í lengur. En það er athyglisvert að á innan við ári hafa tvær ríkisstjórnir á Íslandi fallið vegna hneykslismála, hin fyrri vegna eigna í aflandsfélögum, hin síðari vegna mála sem tengjast kynferðisbrotum.

Hér á árum áður féllu ríkisstjórnir á Íslandi yfirleitt vegna ágreinings um efnahagsráðstafanir og hagstjórn – sem var þá yfirleitt í kalda koli. En, ef ég fer ekki með fleipur, þá er þetta skammlífasta samsteypustjórn Íslandssögunnar. Hún var svo ótraust að hún sprakk við fyrsta stóráfallið.

Hvaða kostir eru í stöðunni? Við munum að það tók afar langan tíma að mynda ríkisstjórnina sem nú er að fara frá.

Framsóknarflokkurinn gæti gengið til liðs við stjórnina, hann þekktur fyrir að vera yfirleitt tilkippilegur í stjórnarsamstarf. Tvennt mælir á móti því – það er varla neitt sérlega freistandi að fara í samstarf við Sjálfstæðisflokkinn við þessar aðstæður. Og svo hitt – það er himinn og haf milli Framsóknar og Viðreisnar, síðarnefndi flokkurinn vildi alls ekki vera í stjórn með þeim fyrrnefnda eftir kosningarnar í október. Það kann þó að hafa breyst – Viðreisn þurfti að sönnu að kyngja nokkrum kosningaloforðum við stjórnarmyndunina.

Reynt verður aftur að koma saman fimm flokka ríkisstjórninni sem Katrín Jakobsdóttir var að reyna að berja saman eftir kosningarnar. Þá tókst það ekki vegna innri ágreinings innan Vinstri grænna og vegna þess að andstaða var við slíku stjórnasamstarfi innan Viðreisnar. Kannski reynist áhuginn meiri eftir stjórn Sjálfstæðisflokks, VG og BF sem reyndist svo ótraust og skammlíf? Viðreisn hefur reyndar lýst því yfir strax að boða eigi til kosninga.

Í ljósi þess sem nú gengur á er ekki líklegt að VG hafi löngun til þess að prófa það sem ýmsir létu sig dreyma um í vetur, einkum landsbyggðararmur flokksins, stjórnarmyndun með Sjálfstæðisflokknum.  VG virðist heldur ekki þurfa að óttast kosningar, gengi flokksins í skoðanakönnunum hefur verið gott.

Svo er auðvitað hægt að boða til kosninga. Þá er annað hvort að gera það fljótlega og kjósa strax í október – ellegar stofna minnihlutastjórn sem sæti fram á vormisseri. Sú minnihlutastjórn þyrfti að njóta hlutleysis á þingi – það er spurning hvaða flokkur eða flokkar gætu tekið að sér að vera í slíkri stjórn?

Það eru bæjar- og sveitastjórnakosningar í vor. Það gæti reynst býsna erfitt fyrir stjórnmálaflokkanna að fara í tvennar kosningar með stuttu millibili.

Nýja aflið í íslenskum stjórnmálum heitir Flokkur fólksins. Hann er farinn að mælast í tveggja stafa tölum í skoðanakönnnum. Hefur mikinn byr í seglin. Fyrir hann gæti þetta verið frábær niðurstaða. Eða eins og einn Facebook-vinur minn skrifar:

Kosningar eru frábær niðurstaða. Sterk niðurstaða fyrir Flokk fólksins mun gera allt betra á Íslandi.

Það er svo spurning með stöðu Bjarna Benediktssonar sem þarna hefur misst ríkisstjórn sína eftir mjög stutta veru í forsætisráðuneytinu. Þar má minna á að landsfundur Sjálfstæðisflokksins verður haldinn í nóvember. Fundarmenn hafa varla búist við að hann færi fram við slíkar aðstæður. Eða verður Sjálfstæðisflokkurinn í stjórn þegar fundardagarnir renna upp? Og verður Bjarni áfram formaður? Staða hans virtist afar trygg fyrir fáum dögum, en hún er það ekki lengur.

 

Skammlífasta ríkisstjórnin, einungis minnihlutastjórnir hafa setið skemur. Nú falla ríkisstjórnir ekki vegna efnahagsmála heldur vegna hneykslismála.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Orðið á götunni: Atlaga Stefáns Einars að Þórði Snæ hjálpar Samfylkingu – tryggir jafnvel kjör fyrrum ritstjóra Fréttablaðsins

Orðið á götunni: Atlaga Stefáns Einars að Þórði Snæ hjálpar Samfylkingu – tryggir jafnvel kjör fyrrum ritstjóra Fréttablaðsins
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 dögum

Steinunn Ólína skrifar: Óheiðarleiki er smitsjúkdómur

Steinunn Ólína skrifar: Óheiðarleiki er smitsjúkdómur
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 dögum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Ræðum ESB!

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Ræðum ESB!
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 dögum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Sér íslenskir skattar og yndi stjórnlyndra flokka

Þorsteinn Pálsson skrifar: Sér íslenskir skattar og yndi stjórnlyndra flokka