Suður-Kóreumenn segjast hafa séð vísbendingar um að Norður-Kóreumenn ætli sér að halda áfram eldflaugatilraunum sínum, hugsanlega langdræga eldflaug. Norður-Kóreumenn segja að þeir hafi sprengt vetnissprengju í gær, sprengju sem þeir geti komið fyrir á eldflaug. Suður-Kóreumenn hafa sent nágrönnum sínum í norðri skýr skilaboð með því að halda sínar eigin eldflaugaæfingar.
Bandaríkjamenn hafa gefið út að þeir muni svara með „gríðarlegum hernaðarmætti“ ef sér eða bandamönnum sínum yrði ógnað. Suður-Kóreumenn og Bandaríkjamenn eru nú að koma fyrir hergögnum í návígi við Norður-Kóreu, þar á meðal sprengjuflugvélum og flugmóðurskipum.
Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði á Twitter að „friðartal“ Suður-Kóreumanna gagnvart Norður-Kóreu myndi ekki virka. Gagnrýndi hann einnig Kínverja fyrir að vera ekki búnir að hætta alfarið viðskiptum við Norður-Kóreu, sagði Trump að hann væri að íhuga að hætta viðskiptum „við þau lönd sem stunda viðskipti við Norður-Kóreu“. Það yrði mjög stórt skref enda eru Kínverjar helsta viðskiptaþjóð Bandaríkjanna.
Erfitt er að meta stærð kjarnorkuvopnsins sem Norður-Kóreumenn sprengdu í gær, en vetnissprengjur eru talsvert öfugri vopn en þeir hafa átt fram að þessu. Suður-Kóreumenn segja að sprengjan, sem sprengd var neðanjarðar, hafi verið um 50 kílótonn, sem er fimm sinnum öflugri sprengja en þeir sprengdu í september í fyrra. CNN hefur hins vegar eftir NORSAR, norskri rannsóknarstofu, að sprengjan hafi verið um 120 kílótonn.