Furðulegt er það hirðuleysi að ekki hafi verið hægt að fá áreiðanlegar tölur um fjölda erlendra ferðamanna á Íslandi. Vefsíðan Túristi vakti athygli á þessu í vor og þá var farið að skoða málið.
Viti menn. Eiginlegir ferðamenn til Íslands eru fjórtán prósentum færri í júní en talið var. Til að teljast ferðamaður þarf viðkomandi að gista yfir nótt. En 11 prósent taldra ferðamanna millilentu aðeins og stöldruðu við dagpart – 3 prósent farþeganna voru svo útlendingar sem búa á Íslandi í lengri eða skemmri tíma.
Erlendir ferðamenn í júlí voru semsagt 234 þúsund, ekki 272 þúsund eins og Ferðamálastofa gaf út.
Þetta er á sama tíma og talað er um minnkandi umsvif í ferðaþjónustu eins og lesa má um í Morgunblaðinu í dag. Þetta birtist ekki síst í því að ferðamennirnir sem hingað koma eyða minna fé. Þar hlýtur hátt gengi íslensku krónunnar að vera stærsti áhrifavaldurinn. Hins vegar er fjárfest í ferðamennsku eins og enginn sé morgundagurinn, bæði í hótelum og veitingastöðum.
Áhuginn á Íslandi virðist samt ekki hafa minnkað að ráði. Ég dvaldi í Bandaríkjunum í sumar og hvarvetna hitti maður fólk sem sagðist vera á leiðinni til Íslands, hafði komið til Íslands, langaði þangað eða þekkti einhvern sem hafði ferðast til landsins.