Jón Gerald Sullenberger kaupmaður í Kosti á Dalvegi segir að hann verði var við mikla reiði og á óánægju í garð íslenskra kaupmanna í kjölfar komu Costco til landsins. Segir hann í viðtali við ViðskiptaMoggann í dag að það sé fáránlegt allt saman að refsa kaupmönnum vegna Haga þar sem Hagar séu í eigu neytenda í gengum lífeyrissjóðina:
„Ég tel að þetta eigi helst við um Haga og yfirmenn þeirra en það hefur lítið að gera með okkur hin. Eins má benda á að þetta er komið í heilan hring, því hverjir eru stærstu eigendur stóru keðjanna í dag? Jú, það eru lífeyrissjóðirnir okkar. Það er eins og fólk átti sig ekki á þessu. Það refsar fyrirtækjum sem það á sjálft! Þetta er pínu fáránlegt allt saman,“
segir Jón Gerald. Hann segir mikla fákeppni hafa ríkt á matvörumarkaði þegar hann opnaði Kost árið 2009, þá hafi Baugur verið með 65% af markaðnum og enn meira á höfuðborgarsvæðinu. Telur hann að stjórnvöld hefðu átt að skipta Baugi upp þegar hann fór í þrot:
Ég átti ekki von á öðru en þetta yrði allt brotið upp og viðskiptaumhverfið gert eðlilegra. Reyndar hafa Hagar misst markaðshlutdeild eftir að lífeyrissjóðirnir fjárfestu líka í Festi sem á og rekur Krónuna og fleiri verslanir, en báðir aðilar hafa verið að bæta við sig verslunum. Krónan er komin með fjórar nýjar verslanir frá hruni og tvær til viðbótar eru á teikniborðinu í Garðabæ og Akureyri. Hagar hafa byggt sex nýjar Bónusverslanir frá hruni og mér skilst að þeir séu ekki hættir. Hér í Kópavogi eru fjórar Bónusverslanir og þrjár Krónubúðir. Ef við tökum þetta saman þá eru 12 matvöruverslanir í Kópavogi og hér búa um 35 þúsund manns. Þetta kallar maður offjárfestingu í boði lífeyrissjóðanna.
Segir Jón Gerald samkeppnisumhverfið í dag vera glórulaust:
Er virkilega vöntun á öllum þessum verslunum? Og allt veltur þetta á endanum út í matvöruverðið. Hvernig eiga minni verslanirnar að geta keppt í þessu umhverfi; annars vegar við lífeyrissjóði landsins, sem eru búnir að setja milljarða í þessar tvær keðjur, og svo Costco, stærstu heildverslun í heimi? Þetta er glórulaust.