Við Íslendingar erum svo friðsöm og meinlítil þjóð að við höfum engar styttur af ógeðskörlum sem okkur gæti dottið í hug að taka niður. Við höfum okkar Jón Sigurðsson og Jónas, Bertel Thorvaldsen, Hannes Hafstein, jú og einn danskan kóng, Kristján níunda.
Í Bandaríkjunum geisa deilur um styttur. Menn fara meira að segja að næturþeli og fjarlægja styttur af foringjum úr þrælastríðinu – sem margir voru sannarlega illmenni. Viðbrögð Trumps voru kannski heldur taktlaus þegar hann nefndi að Washington og Jefferson hefðu líka iðkað þrælahald. Maður spyr samt hvort ekki sé heldur seint í rassinn gripið? Og svo virðist þetta líka geta virkað eins og olía á eld átaka.
Minnismerki um kommúnismann voru víða fjarlægð undireins og hann leið undir lok, þau er helst að finna í nokkuð afskekktum hornum gömlu Sovétríkjanna. Ég kom eitt sinn í myndastyttugarð í Moskvu sem var fullur af styttum af gömlum kommaleiðtogum, Lenín, Stalín og Brésnef. Það var eins og ruslahaugur sögunnar. Ég tók þessa mynd þar fyrir nokkrum árum.
Í Þýskalandi gættu bandamenn þess að fjarlægja öll minnismerki nasismans eftir heimsstyrjöldina. Það var ekki eftir ein einasta stytta af Hitler og fólk sem átti myndir af honum varð að farga þeim eða fela.
Afua Hirsch skrifar í Guardian og vill að Englendingar taki sig til og fjarlægi styttuna af Nelson flotaforingja á Trafalgartorgi. Hirsch segir að Nelson hafi verið fúlmenni sem varði þrælahald af krafti. Hann nefnir líka styttu af Cecil Rhodes, eins ákafasta landkönnuðar nýlendutímans, sem stendur í Oxford. Rhodes var rasisti sem óð yfir allt og alla.
Frakkar munu seint fjarlægja styttur af Napóleoni Bonaparte. Þeim er enn tamt að líta á þennan Korsíkumann sem hóf allsherjarstríð í Evrópu sem frelsishetju. Hann stendur á sínum stalli á Vendome torgi. Napóleon var reyndar svo hégómlegur að hann lét reisa hið háa minnismerki sjálfur. Listamaðurinn Gustave Courbet komst til skammvinnra áhrifa á tíma Parísarkommúnunnar 1871. Hann fór með lið manna og náði að fella súluna og styttuna ofan á henni.
Kommúnan entist ekki lengi, Courbet flúði, en í refsingarskyni var honum gert að borga viðgerðina á minnismerkinu. Honum entist ekki aldur til þess.
Sjálfum hefur mér verið mjög illa við styttur sem standa í Bretlandi og Frakklandi og sýna hershöfðingja úr fyrri heimsstyrjöldinni. Ég get varla ímyndað mér meiri drullusokka en þá sem sendu milljónir ungra manna út í vígvelli og í opinn dauða, eins og ekkert væri, á árunum 1914 til 1918, í því gjörsamlega tilgangslausa stríði. En stendur stytta af Haig á mjög fínum stað í London og af Foch í París. Ég verð að viðurkenna að ég hræki alltaf pínulítið á laun þegar ég sé styttur af þessu tagi.