Síðastliðið laugardagskvöld var 245 fornum munum frá víkingaöld stolið af Sögusafni Háskólasafnsins í Björgvin í Noregi.
Þjófarnir komust upp um vinnupalla sem búið var að klæða að utan með dúk, brutu glugga og fóru inn í safnið. Viðvörunarkerfi safnsins fór tvisvar í gang þetta kvöld.
Öryggisverðir sem fóru á staðinn uppgötvuðu ekkert grunsamlegt. Það var ekki fyrr en safnverðir mættu til vinnu á mánudag að það uppgötvaðist að þjófar höfðu látið greipar sópa.
Í fyrstu var ekki vitað hve miklu hefði verið stolið en nú liggur það nokkurn veginn fyrir. Stolið var brjóstnælum, hringjum og öðrum skrautmunum, hestamélum, lyklum og gripum af fleira tagi. Háskólasafnið í Björgvin hefur nú opnað Facebook-síðu sem heitir „Þjófnaðurinn á Sögusafninu“. Þar má sjá tæplega hundrað ljósmyndir af gripunum sem saknað er. Vera má að þeim muni fjölga þegar safnvörðum hefur gefist meiri tími til að fara gegnum safnkostinn í geymslum Sögusafnsins.
Henrik von Achen einn af stjórnendum safnsins segir í viðtali við norska ríkisútvarpið NRK að búið sé að stela mörgum mikilvægum hlutum menningararfsins.
Hér er um að ræða svo marga hluti að þetta er hræðilegt fyrir safnið. Það finnst ekkert annað orð yfir þetta.
Með því að birta myndir af gripum sem var stolið vonast stjórnendur safnsins til að fá hjálp almennings til að finna þá aftur.
Þetta er ekki einungis þjófnaður frá Háskólasafninu í Björgvin. Þetta er þjófnaður frá okkur öllum. Allir Norðmenn hafa með þessu tapað einhverju af sínum menningararfi,
segir von Achen.
Óttast er að þjófarnir reyni að selja gripina á sölusíðum á netinu og því er fólk beðið um að vera á varðbergi og láta vita ef eitthvað sést. Myndir af því sem saknað er má sjá með því að smella hér fyrir neðan:
STOLEN: Several important objects from the Norwegian cultural heritage are missing. Irreplaceable pieces of history are…
Posted by Universitetsmuseet i Bergen on 15. ágúst 2017