Moon Jae-in forseti Suður-Kóreu biðlar til Bandaríkjanna um að sýna stillingu gera allt sem í þeirra valdi stendur til að koma í veg fyrir stríð á Kóreuskaganum, biðlar hann einnig til yfirvalda í Norður-Kóreu um að hætta öllum ögrunum og hótunum tafarlaust. Moon fundaði með Joseph Dunford æðsta hershöfðingja Bandaríkjanna í morgun og ræddu þeir um stöðu mála í tengslum við deiluna við Norður-Kóreu. Sagði Dunford í morgun að Bandaríkin væru reiðubúin að beita hernaðarmætti sínum gegn Norður-Kóreu ef viðskiptaþvinganir og samningaviðræður hefðu ekki áhrif á eldflauga- og kjarnorkuvopnatilraunir þeirra. Kínverjar hafa bæst í hóp þjóða sem beita nú Norður-Kóreumönnum viðskiptaþvingunum, en fram til þessa hafa Norður-Kóreumenn geta treyst á viðskipti við Kína.
Sjá einnig: Bandaríkin tilbúin í hernaðaraðgerðir
Moon sagði að friður væri eina leiðin:
Það eru þjóðarhagsmunir og okkar aðaláhersla að friður haldi. Ég er viss um að Bandaríkin muni mæta stöðunni sem við erum í núna á varfærinn og ábyrgan hátt til að tryggja frið,
sagði Moon á blaðamannafundi í Seúl í dag.
Norður-Kóreumenn ítrekuðu í morgun að ef til átaka kæmi þá myndu þeir beita kjarnorkuvopnum sínum, fram kom í fréttatíma á ríkissjónvarpsstöðinni KCNA að stríðsátök gætu brotist út vegna „minniháttar atviks“:
Vandinn er sá að ef það kemur til stríðs þá verður það háð með kjarnorkuvopnum,
sagði fréttamaður í norður-kóreska ríkisstjórnvarpinu, þar kom einnig fram að þar á bæ væri grannt fylgst með aðgerðum og orðum Bandaríkjamanna:
Við fylgjumst áfram grannt með gangi mála í Bandaríkjunum.