Það er mikið rætt þetta sumarið um ófremdarástand sem hefur skapast á ferðamannastöðum vegna átroðnings. Þar er Ísland ekki nefnt, ekki enn, heldur staðir eins og Feneyjar, Barcelona, San Sebastia, Dubrovnik og Flórens. Meira að segja frá eyjunni Skye við strendur Skotlands heyrast kvartanir. Sums staðar má sjá fólk með spjöld þar sem stendur: Burt með túristana!
Við erum öll partur af vandamálinu, það er að segja við sem ferðumst, eins og Martin Kettle bendir á í ágætri grein í Guardian. Þar segir að massatúrisminn sé komin út á ystu nöf.
Viðar Víkingsson kvikmyndagerðarmaður kafar hins vegar dýpra í litlum greinarstúf á Facebook. Hann spyr einfaldlega til hvers fólk sé að ferðast í nútímanum?
Til hvers er fólk að ferðast milli landa? Eftir endalausa bið og stympingar á flugvöllum er komið í nýja borg. Hér áður fyrr fór maður í bóka- og plötubúðir til að uppgötva hvað framandi menning hefði upp á að bjóða. Nú hefur þeim búðum fækkað mjög enda kaupa flestir bækur, tónlist og kvikmyndir gegnum netið. Söfn: Það kostar sömu biðina og á flugvöllunum að komast inn í þau og síðan taka við nýr troðningur og stympingar. Og verkin í stóru söfnunum, Prado, Louvre,… er hægt að skoða í miklum smáatriðum á netinu og án þess að verða fyrir olnbogaskotum. Fara út að borða? Flestir veitingastaðir eru komnir í eigu keðja sem allsstaðar selja sama matinn. Byggingar, ok, kannski hægt að skoða þær og taka selfie. Kynnast heimafólki? Það hefur flúið túrismann út í úthverfin. Einu ferðalögin af viti eru sennilega á mjög fráhrindandi og hættulega staði til að eiga þess kost að spyrja sjálfan sig: Hvað í fjandanum er ég að gera hér?