Verslunarmannahelgin er stærsta ferðahelgi ársins og tími mikilla anna hjá lögreglu. Ómögulegt er að segja hversu margir koma til með að ferðast um helgina en það sem skiptir mestu máli er að allir komi heim heilir á húfi. Blaðamaður hitti Hannes Þór Guðmundson varðstjóra í umferðardeild LRH og ræddi við hann um það helsta sem hafa þarf í huga í umferðinni um helgina.
Hannes Þór hefur starfað í lögreglunni í 22 ár, þar af í tólf ár í umferðardeild, hann segir margt hafa breyst á þessum tíma, áður fyrr hafi allir farið af stað á föstudeginum fyrir verslunarmannahelgina og komið aftur síðdegis á mánudegi en nú sé að dreifast úr ferðadögunum. Segir hann að nú þegar séu margir komnir á þann stað sem þeir ætli að vera yfir helgina og komi í bæinn jafnvel á sunnudaginn eða síðar í næstu viku.
Hvað er það helsta sem fólk þarf að hafa í huga í umferðinni um verslunarmannahelgina?