Donald Trump Bandaríkjaforseti segir að Bandaríkjamenn muni „sjá um“ Norður-Kóreu en vill að öðru leyti ekki gefa upp hvað hann hyggist gera varðandi nýjustu eldflaugatilraunir Norður-Kóreumanna.
Norður-Kóreumenn skutu langdrægri eldflaug á loft síðastliðinn föstudag, eldflaugin lenti í hafinu á milli Kóreuskagans og Japan. Um er að ræða langdrægnari eldflaug en hingað til og gæti nýjasta eldflaugin náð til borga í Bandaríkjunum, segja sérfræðingar að eldflaugin gæti jafnvel náð til New York á austurströnd Bandaríkjanna.
Trump fundaði með ríkisstjórn sinni í dag, eftir fundinn var hann spurður af CNN um eldflaugatilraunir Norður-Kóreu, svaraði hann:
„Við sjáum um Norður-Kóreu. Við getum séð um þá. Þetta verður leyst. Við leysum allt.“
Trump var áður búinn að tjá sig um málið á Twitter, sagði hann að Kína hefði valdið sér vonbrigðum en hann vill að Kína þrýsti á Norður-Kóreu til að hætta eldflaugatilraunum sínum:
Kína hefur valdið mér miklum vonbrigðum. Þeir gera EKKERT fyrir okkur varðandi Norður-Kóreu, tala bara. Við getum ekki leyft þessu að halda áfram. Kína getur auðveldlega leyst þennan vanda!