fbpx
Fimmtudagur 23.janúar 2025
Eyjan

Þýskir stjórnmálamenn vilja hertar reglur um hælisleitendur

Ari Brynjólfsson
Mánudaginn 31. júlí 2017 09:09

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Frá vettvangi á föstudaginn. Mynd/EPA

Í kjölfar árásar 26 ára hælisleitanda á viðskiptavini í stórmarkaði í Hamborg í Þýskalandi á föstudaginn hafa margir stjórnmálamenn tjáð sig og krafist hertra reglna um hælisleitendur. Umræðan um þetta er ekki ný af nálinni en hefur nú blossað upp á nýjan leik í kjölfar árásarinnar.

Árásarmaðurinn varð einum að bana í stórmarkaðnum og særði nokkra. Hann var síðan handtekinn eftir að vegfarendur höfðu elt hann uppi og nánast handsamað þegar lögreglan kom á vettvang. Hann er 26 ára Palestínumaður og var á síðasta ári synjað um hæli í Þýskalandi og var þá tilkynnt að hann yrði að yfirgefa landið.

Ekki hafði enn tekist að koma honum úr landi því hann var ekki með nein gild persónuskilríki og því vildi ekkert land taka við honum og sátu Þjóðverjar því uppi með hann. Þetta kemur fyrir í málum sem þessum og eru dæmi um að ómögulegt sé að losna við fólk sem hefur verið synjað um hæli því það hefur ekki nein skilríki frá heimalandi sínu meðferðis og heimalöndin vilja ekki taka við því og bera þetta skilríkjaleysi fyrir sig.

Wolfgang Bosbach, úr CDU, sagði í samtali við Die Welt að Þjóðverjar verði að vita hverjir koma til landsins, það að taka fingraför komi ekki í stað þess að sjá vegabréf viðkomandi.

Ansgar Heveling, formaður innanríkismálanefndar sambandsþingsins, hefur nú krafist þess að reglur um vegabréfsáritanir verði hertar hvað varðar ríki sem vilja ekki vinna með Þjóðverjum þegar kemur að því að ríkisborgurum þeirra er vísað úr landi í Þýskalandi eftir að hælisumsóknum þeirra er hafnað. Þetta er einmitt sami vandi og mörg önnur Evrópuríki standa frammi fyrir.

Bosbach hefur áður viðrað hugmyndir um að vísa öllum þeim frá sem ekki geta sýnt gild skilríki þegar þeir koma til Þýskalands. Hann segir að þetta sé ekki ólöglegt því Þýskaland sé umlukið ríkjum sem eru örugg og fólk eigi ekki á hættu að vera ofsótt þar.

Þýskir jafnaðarmenn, SPD, hafa lagt til að hælisleitendur verði látnir dvelja í sérstökum móttökumiðstöðvum þar til búið er að fá úr því skorið hverjir þeir eru. Það er þó ekki víst að löglegt sé að halda fólki í slíkum miðstöðvum í langan tíma.

Hryðjuverkamaðurinn Anis Amri, sem stóð að baki mannskæðri árás á jólamarkað í Berlín í desember, og maður sem stóð á bak við blóðuga árás á lestarfarþega í Würzburg á síðasta ári notuðu ýmis nöfn þegar þeir komu til Þýskalands en fengu samt sem áður leyfi til að vera í landinu.

Græningjar hafa krafist þess að þýsk stjórnvöld vinni hraðar í málefnum hælisleitenda í framtíðinni og gefin verði út gild skilríki til þeirra. Í samtali við Die Welt benti talsmaður flokksins á að velþekkt væru vandamál með ríki eins og Túnis og Marokkó sem neita að taka við ríkisborgurum sínum ef þeir eru ekki með gild skilríki.

Ekki er enn vitað hvað lá að baki árásinni á föstudaginn en yfirvöld hafa skýrt frá því að árásarmaðurinn sé fæddur í Sameinuðu arabísku furstadæmunum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Sigmundur Ernir skrifar: Tökum sénsinn í Seyðisfirði

Sigmundur Ernir skrifar: Tökum sénsinn í Seyðisfirði
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Þorgerður Katrín: Gjaldmiðillinn verður að vera skjól fyrir heimili og atvinnulíf og gefa færi á því að blómstra

Þorgerður Katrín: Gjaldmiðillinn verður að vera skjól fyrir heimili og atvinnulíf og gefa færi á því að blómstra
Eyjan
Fyrir 1 viku

Klappir og ICR í samstarf

Klappir og ICR í samstarf
Eyjan
Fyrir 1 viku

Forstjórinn reynir að slá á ólguna innan Sýnar með bréfi til starfsmanna – „Engin umræða hefur átt sér stað í minni tíð um lokun fréttastofu Stöðvar 2“

Forstjórinn reynir að slá á ólguna innan Sýnar með bréfi til starfsmanna – „Engin umræða hefur átt sér stað í minni tíð um lokun fréttastofu Stöðvar 2“