fbpx
Mánudagur 25.nóvember 2024
Eyjan

Verslunarpistill frá Ameríku

Egill Helgason
Þriðjudaginn 25. júlí 2017 03:14

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það er merkileg reynsla að versla í Bandaríkjunum, landi ofneyslunnar og ofgnóttarinnar. Hér er allt verslunarfrelsið sem Íslendinga dreymdi um á tíma haftanna – og prísarnir eru oft fáránlega lágir miðað við það sem við þekkjum. Whole Foods sem nú er að komast í eigu Amazon er samt ekki ódýr búð, það skal tekið fram. En margt kaupir maður hér á miklu lægra verði en heima.

Maður sér breytingar á verslunarháttum í fólki sem er á þönum um borgina með sendingar. Verslun hefur færst að nokkru leyti á netið og neytendur láta senda sér heim. Samkvæmt Business Insider er þetta þó ekki enn í jafn miklum mæli og margir virðast halda. Netverslun hefur verið kennt um hrun í hefðbundinni verslun í Bandaríkjunum og ekki síst lokun mikils fjölda verslunarmiðstöðva.

Business Insider segir að þó sé ekki nema 8,5 prósent af verslun í Bandaríkjunum á netinu, 91,5 prósent af varningi sé enn keyptur í búðum sem hafa veggi, gólf og þak. Meginskýringin á þessum mikla samdrætti sé gríðarleg offjárfesting í verslunarhúsnæði sem hófst á síðasta áratug 20. aldarinnar og náði fram undir kreppu 2008. Alls staðar risu stórar og smáar verslunarmiðstöðvar. Í Bandaríkjunum séu 23,5 ferfet af verslunarhúsnæði á hvern einstakling, það sé vonlaust að öll sú fjárfesting geti skilað arði. Því þurfi að loka miklu af þessu verslunarrými.

Það eru einkum hinar dýrari verslanir sem neyðast til að skera niður. Fyrirtæki eins og Sears þarf að loka helmingi af verslunum sínum til að ná sömu nýtingu húsnæðisins og var 2006. Hins vegar dafna afsláttarbúðir eins og Marshalls og TJ Maxx.

Staðreyndin er nefnilega sú að neysla hefur ekki náð sér á strik aftur eftir kreppuna. Fólk kaupir minna, ódýrara, vandar valið betur – og virðist heldur ekki eins áfjáð í að sanka að sér hlutum. Eins og stendur í greininni fer meiri peningur en áður í „upplifanir“. Vissulega hefur netið sín áhrif – en því verður langt í frá einu kennt um vanda verslunarfyrirtækja.

Svo er annað sem maður tekur eftir. Víða eru í verslunum komnar upp stöðvar þar sem viðskiptavinir geta afgreitt sjálfa sig – gera þannig afgreiðslufólk óþarft. Oftast er þó líka afgreiðslufólk af holdi og blóði og áberandi að viðskiptavinirnir leita áfram til þess.

Því hver er eiginlega ánægjan í því að þurfa sjálfur að skanna strikamerki á vörum til að komast út úr búð – líkt og maður sé farinn að vinna á kassa í Bónus? Einhverjum kann að finnast þetta voðalega nútímalegt – en maður fyllist aðallega depurð yfir því hvað þetta er leiðinleg hugmynd og útfærsla, sjá mynd hér að neðan.

Það er reynt að selja neytendum þá hugmynd að þarna sé á ferðinni sé einhvers konar frelsi, en í raun snýst þetta allt um fyrirtæki sem eru að spara aur – og losa sig við starfsfólk. Kannanir sýna að fólki er upp til hópa er meinilla við slíka sjálfsafgreiðslu. Það er rík tilhneiging í samfélagi tækninnar að vanmeta mannleg samskipti – maðurinn er þrátt fyrir allt félagsvera.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Orðið á götunni: Atlaga Stefáns Einars að Þórði Snæ hjálpar Samfylkingu – tryggir jafnvel kjör fyrrum ritstjóra Fréttablaðsins

Orðið á götunni: Atlaga Stefáns Einars að Þórði Snæ hjálpar Samfylkingu – tryggir jafnvel kjör fyrrum ritstjóra Fréttablaðsins
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 dögum

Steinunn Ólína skrifar: Óheiðarleiki er smitsjúkdómur

Steinunn Ólína skrifar: Óheiðarleiki er smitsjúkdómur
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 dögum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Ræðum ESB!

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Ræðum ESB!
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Sér íslenskir skattar og yndi stjórnlyndra flokka

Þorsteinn Pálsson skrifar: Sér íslenskir skattar og yndi stjórnlyndra flokka