Við erum að upplifa afskaplega tíðindalítið pólitískt sumar. Það er sannkölluð gúrkutíð. En Inga Sæland og Flokkur fólksins fá þá hugmynd að nota hana til að koma sér á framfæri, halda fund og fylla Háskólabíó. Og sjá – allt í einu er flokkurinn kominn í heil 6 prósent í skoðanakönnunum. Þetta verður ennþá meira áberandi sökum þess að FF mælist stærri en tveir flokkar sem sitja í ríkisstjórn Íslands, Viðreisn og Björt framtíð.
Fyrir þá er þetta býsna pínlegt en fyrir stjórnmáaafl sem hefur verið á jaðrinum eins og Flokk fólksins getur verið ómetanlegt að fá svona könnun. Hún eflir sjálfstraustið og sýnir kjósendum að þetta kann að vera kostur sem skiptir máli. Og í næstu könnun gæti fylgið orðið enn meira.
Inga Sæland er kokhraust í viðtali við Ríkisútvarpið. Segist ætla að bjóða sig fram í efsta sæti FF fyrir borgarstjórnarkosningarnar í Reykjavík. Gefur stór fyrirheit um húsnæðismál, ókeypis máltíðir í skólum og hjúkrunarheimili, og svo vill hún byggja stærri umferðargötur og hverfa frá áherslu á „vistvænan ferðamáta“ eins og það er kallað í fréttinni.
Allt þetta gæti fengið nokkurn hljómgrunn – og maður heyrir spurt hvort þarna sé kominn fyrsti pópúlistaflokkur Íslands sem eigi einhvern séns?