Andrzej Duda forseti Póllands hefur neitað að staðfesta umdeild lög sem myndu veita ráðherrum vald til að þess að skipa og reka hæstaréttardómara án aðkomu þingsins. Hörð mótmæli hafa geisað í Póllandi undanfarna daga gegn lögunum. Greint er frá þessu á vef BBC. Í kjölfar þess að lögin voru samþykkt á pólska þinginu hafa þau einnig verið gagnrýnd af hálfu Evrópusambandsins.
Hefur Evrópuráðið hótað að beita Pólland viðskiptaþvingunum ef lögin hefðu verið staðfest. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem hægrisinnuð ríkisstjórn Póllands þarf að lúta í lægra haldi fyrir mótmælendum, en í fyrra var frumvarpi sem kvað á um algjört bann við fóstureyðingum hafnað í kjölfar mótmæla, bæði í Póllandi sem og víðar.