Félag í eigu Ólafs Ólafssonar, aðaleiganda Samskipa, og Hjörleifs Jakobssonar fjárfestis kom með tæplega tvo milljarða króna til landsins í gegnum fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands í desember 2012. Miðað við núverandi gengi gæti félagið innleyst um 809 milljónir í gengishagnað, samkvæmt útreikningum Markaðar Fréttablaðsins, en blaðið skýrir frá þessu í dag í úttekt á fjárfestingaleiðinni.
Fjármunir Ólafs og Hjörleifs verða lausir til ráðstöfunar í lok ársins. Árleg ávöxtun yrði þá 13,7 prósent. Við bætist síðan ávöxtunin af sjálfri fjárfestingunni.
Umrætt félag, Arius ehf., tók þátt í útboði fjárfestingarleiðarinnar í lok árs 2012 og fékk þannig ríflega tuttugu prósenta afslátt af krónunum. Voru fjármunirnir einkum nýttir til fjárfestinga í Samskipum og fasteignafélaginu Festingu. Arius er dótturfélag hollenska félagsins SMT Partners B.V. sem er í áttatíu prósenta eigu Ólafs og tuttugu prósenta eigu Hjörleifs.
Fjárfestingarleið Seðlabankans gekk út á að fjárfestar komu með gjaldeyri til landsins og skiptu honum fyrir krónur og fjárfestu hér til lengri tíma. Gulrótin var að þeir fengu um tuttugu prósenta afslátt af krónunum.