Eitt sinn vann ég í blaðamennsku með manni sem þýddi af Reutersskeyti langa grein um mafíuna í Nepal. Ég klóraði mér dálítið í hausnum yfir gríðarlegum ítökum mafíunnar í þessu afskekkta fjallaríki, þetta virkaði mjög áhyggjusamlegt.
En svo áttaði ég mig á því hvað hafði gerst og kom, – liggur mér við að segja því miður – í veg fyrir birtingu greinarinnar. Þessi ágæti vinnufélagi minn hafði þýtt enska orðið Naples sem Nepal – en það þýðir auðvitað Napólí sem er borg á Ítalíu, þekkt fyrir mafíustarfsemi.
Það eru ýmis skemmtileg dæmi um svona. Annað á góður vinur minn, sem ég ætla ekki að nefna. Hann skrifaði í grein að þegar keisaradæmi Manchu ættarinnar féll í Kína í byrjun tuttugustu aldar, hefðu kínverskir karlar unnvörpum hent frá sér svínshölunum sem þeir báru til marks um tryggð við keisaraveldið.
En svínshalarnir voru í rauninni það sem á ensku kallast „pig-tails“ – fléttur í hári.
Þetta rifjaðist upp vegna þess að í Morgunblaðinu í morgun birtist frétt um þorp í Transylvaníu í Rúmeníu, héraðinu sem er frægt fyrir dulúð – jú, og sjálfan Drakúla greifa. Eins og sjá má er þorpið kallað Picturesque Biertan í fréttinni.
Hér er svo mynd frá Biertan, sem vissulega er mjög myndrænt þorp – engu er logið um það.