Abu Bakr al-Baghdadi leiðtogi ISIS-hryðjuverkasamtakanna er dauður. Þetta fullyrða mannréttindasamtökin Syrian Observatory for Human Rights, en þessar upplýsingar hafa ekki fengist staðfestar hjá Bandaríkjamönnum, Kúrdum né hjá stjórnvöldum í Írak. Samkvæmt Rami Abdulrahman, yfirmanni samtakanna, voru háttsettir meðlimir samtakanna í Deir al-Zor í Sýrlandi þar sem al-Baghdadi á að hafa fallið í júní eða byrjun júlí.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem fullyrt sé að al-Baghdadi sé fallinn en hann er eftirlýstur um allan heim vegna hryðjuverka ISIS og fyrir nauðgun. Ef rétt reynist þá er þetta stór áfangi í baráttunni gegn ISIS í Sýrlandi og í Írak. Al-Baghdadi stofnaði ISIS vorið 2013 og svo kalífadæmi Íslamska ríkisins ári síðar. Hann var áður liðsmaður Al-Qaeda hryðjuverkasamtakanna og hafa menn gefið honum viðurnefnið Draugurinn vegna þess hve erfitt hefur reynst að finna hann.