Ég sá um daginn frétt um að færri ungmenni tækju bílpróf en áður. Það var farið í alls konar sér-íslenskar fabúleringar um hvernig kynni að standa á þessu, en staðreyndin er einfaldlega sú að þetta er alþjóðleg þróun. Hennar gætir á Íslandi, en líka í Bandaríkjunum og á Nýja Sjálandi. Þetta er einfaldlega spurning um það að lífstíllinn sem fylgir bílaborgum þykir síður eftirsóknarverður en á tíma hinnar miklu úthverfavæðingar.
Ungt fólk sækir inn í borgirnar þar sem hægt er að ganga í verslanir, veitingahús, þjónustu og menningarstofnanir. Um leið minnkar þörfin á því að aka bíl – og svo er hitt að það er dýrt að eiga bíl og reka bíla.
Bílastæði geta til dæmis verið ótrúleg verðmæti, enda kostar landið sem fer undir þau – ólíkt því sem sumir virðast halda á Íslandi. Ég tók að gamni tvær myndir af verðskrám í bílastæðum í borginni Boston í Bandaríkjunum. Við sjáum að hálftíminn kostar 8-10 dollara. Einn og hálfur tími 18-30 dollara. Sólarhringur 33-42 dollara. Það þýðir að myndi kosta um 135 þúsund íslenskar krónur að leggja í slíkt stæði samfellt í einn mánuð.