Anne Marie Morris þingmaður Íhaldsflokksins breska hefur beðist afsökunar á að hafa notað orðið „negri“ eða „nigger“ í opinberum umræðum um útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu. BBC greinir frá þessu. Orðið lét hún falla á ráðstefnu Politeia og voru þau birt á vef Huffington Post í dag. Var Morris þá að tala um áhrif Brexit á fjármálakerfi Bretlands og sagði:
Það sem er alvöru negrinn í viðarstaflanum, sem er hvað gerist eftir tvö ár ef það verður ekki samið.
Um er að ræða orðatiltæki sem á rætur sínar að rekja til Bandaríkjanna á 19.öld þegar þrælar flúðu Suðurríkin til að komast norður, var þá talað um að þeir myndu fela sig í viðarstafla. Rithöfundar notuðu þetta nokkrum sinnum á 20.öld þegar talað var um falið vandamál, eða vandamál sem er ekki augljóst öllum.
Frjálslyndir demókratar á breska þinginu hafa kallað eftir því að Theresa May forsætisráðherra reki Morris úr þingflokki Íhaldsflokksins:
Þessi viðbjóðslegu ummæli eiga heima á tímum Jim Crow-laganna og eiga ekkert erindi við þingið,
sagði Tim Farron leiðtogi Frjálslyndra demókrata. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem þingmaður Íhaldsflokksins notar þetta orðatiltæki við dræmar undirtektir, árið 2008 notaði Dixon-Smith lávarður þetta orðatiltæki í umræðum í lávarðadeild breska þingsins. Baðst hann afsökunar og fékk stuðning frá David Cameron þáverandi forsætisráðherra.